Fara í efni
Til baka í lista

Ögurkirkja, Ögurvík, Ísafjarðardjúpi

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1859

Hönnuður: Ókunnur. 

Breytingar: Þakturn reistur og hvelfing, setuloft og setsvalir smíðuð í kirkjuna um 1886.

Hönnuður: Líklega Jakob Rósinkarsson forsmiður og bóndi í Ögri.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Ögurkirkja er timburhús, 9,52 m að lengd og 5,12 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn og á honum ferstrent íbjúgt þak. Bogadregin hljómop með hlera fyrir eru á turnhliðum. Kirkjan er klædd listaþili, þak bárujárni, turnþak sléttu járni og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar og einn á framstafni uppi yfir kirkjudyrum. Í þeim er níurúðu rammi og skoraðir faldar til hliðar og strikuð brík yfir. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og um þær svipaður umbúnaður og um glugga.

Inn af kirkjudyrum er gangur og bekkir hvorum megin hans en veggbekkir í kór. Bök bekkja eru klædd spjaldaþili og innstu bekkir í framkirkju eru tvísættir. Kórþil er í háu spjaldaklæddu baki innstu bekkja. Yfir fremsta hluta framkirkju er setuloft og setsvalir inn að miðgluggum og stigi við framgafl sunnan megin. Langbekkir með klæddum bökum eru á setulofti og setsvölum. Þrjár súlur eru undir frambrúnum setsvala hvorum megin. Veggir eru klæddir spjaldaþili. Yfir fremri hluta framkirkju er hvelfing og önnur breiðari og lægri yfir innri hluta framkirkju og kór, báðar klæddar borðum.



[1]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C, V. 144. Bréf 1860. Skýrsla um ástand og fjárhag kirknanna í Norður-Ísafjarðarprófastsdæmi árið 1859.

[2]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C, V. 145. Bréf 1888. Skýrsla um kirkjur í Norður-Ísafjarðarprófastsdæmi í fardögum árið 1887.