Fara í efni
Til baka í lista

Ólafsfjarðarkirkja, Kirkjuvegur 12

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1915

Hönnuðir: Rögnvaldur Ólafsson og Einar Erlendsson arkitektar.

Breytingar: Kirkjan lengd 1997 og safnaðarsalur og safnaðarheimili byggð við norðurhlið.  

Hönnuður: Fanney Hauksdóttir arkitekt.[1]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Ólafsfjarðarkirkja er steinsteypuhús, 15,28 m að lengd og 7,50 m á breidd, með kór undir minna formi, 2,80 m að lengd og 3,80 m á breidd, og stöpul með turni við vesturstafn, 2,20 m að lengd og 2,50 m á breidd. Þök eru krossreist og klædd bárujárni. Kirkjan er múrhúðuð, múrbrúnir undir þakskeggi og múrhúðaðar vindskeiðar undir þakbrúnum, bogadregnar neðst á innri brún og þverskornar að neðan. Stöpull er ferstrendur og á honum sinkklætt ferstrent þak og lágur turn upp af með píramítaþaki sem gengur út undan sér neðst. Undir þakskeggi stöpuls og turns eru einfaldir þverstrikaðir krappar. Á suðurhlið kirkju eru sjö smárúðóttir bogadregnir gluggar, þrír á norðurhlið og einn minni á hvorri kórhlið og einn á framstafni kirkju hvorum megin stöpuls. Gluggi er ofarlega á þremur hliðum stöpuls en þrír samlægir gluggar á turni. Stór hringgluggi er á framstafni stöpuls yfir dyrum og annar minni á austurstafni kirkju. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir. Við norðurhlið kirkjunnar eru steinsteyptur kirkjusalur og safnaðarheimili og á þeim bogagluggar og krossreist bárujárnsklædd þök.

Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir og gangur inn af þeim að kór sem hafinn er yfir kirkjugólf um eitt þrep. Kórdyrabogi er á mörkum framkirkju og kórs og skrúðhús bak altaris. Þverbekkir eru hvorum megin gangs. Söngloft, bogadregið á frambrún og stutt tveimur stoðum, er yfir fremsta hluta framkirkju og stigi í norðvesturhorni. Á norðurvegg innarlega eru þríbogadregnar dyr að viðbyggingu. Tvær súlur eru undir bogunum. Veggir kirkjunnar eru klæddir sléttum plötum. Hvelfingar eru yfir framkirkju, kór og viðbyggingu.



[1]Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands 9, Ólafsfjarðarkirkja, 240-255. Reykjavík 2007.