Fara í efni
Til baka í lista

Ólafsvallakirkja, Skeiðahreppur, Árnessýsla

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1897

Hönnuður: Kristinn Jónsson vagnsmiður.

Athugasemd: Samúel Jónsson forsmiður var yfirsmiður kirkjunnar.[1]

Breytingar: Kór byggður við kirkjuna 1965-1967, gluggum breytt, forkirkja breikkuð inn í framkirkju, veggir klæddir plötum og lausir bekkir smíðaðir í kirkjuna. Hönnuður: Bjarni Pálsson byggingafulltrúi.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Ólafsvallakirkja er timburkirkja, 10,15 m að lengd og 6,33 m á breidd, með kór í minna formi, 2,02 m að lengd og 5,45 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með risþak og breiður stallur undir honum. Hljómop með glerrúðu er á framstafni turns. Laufskornar vindskeiðar eru undir þakbrúnum. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir átta rúðu gluggar og þrír sex rúðu gluggar á framstafni yfir kirkjudyrum, miðglugginn sýnu stærri en hinir tveir. Á hvorri hlið kórs eru tveir gluggar með sex rúðum hvor. Í gluggunum er miðpóstur og þverpóstar. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir.

Forkirkja er stúkuð af framkirkju með þverþili. Í henni sunnan megin er skrúðhús en stigi til sönglofts og setsvala norðan megin. Á þverþilinu eru dyr að framkirkju með vængjahurðum fyrir. Inn af þeim er gangur og hvorum megin hans eru lausir bekkir. Kórgólf er hafið yfir kirkjugólf um eitt þrep og yfir kórdyrum er kórbogi á tveimur stoðum. Söngloft er yfir forkirkju og fremsta hluta framkirkju og setsvalir inn með hliðum. Hvorum megin undir setsvölum eru tvær stoðir og á söngsvölum tvær turnstoðir með súluhöfuð og þverbiti á milli þeirra. Veggir eru klæddir sléttum plötum. Reitaskipt hvelfing er yfir framkirkju stafna á milli en risloft yfir kór.



[1]ÞÍ. Bps. C. V, 72 B. Bréf 1898. Byggingarreikningur Ólafsvallarkirkju 1897 ásamt fylgiskjölum.

[2]Árnesprófastsdæmi. Vísitasíubók 1955-. Ólafsvellir 1970; Páll Bjarnason tæknifræðingur. Viðtal 2001. Sjá ennfremur: Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands 2. Ólafsvallakirkja, 52-62. Reykjavík 2002.