Fara í efni
Til baka í lista

Pakkhúsið í Ólafsvík, Ólafsbraut 12

Friðlýst hús

Byggingarár: 1844

Hönnuður: Ókunnur.

Friðað í A-flokki af menntamálaráðherra 31. ágúst 1970 samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[2]

Friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Pakkhúsið er tvílyft timburhús með risþaki, 12,73 m að lengd og 8,38 m á breidd. Húsið stendur á steinhlöðnum sökkli, veggir eru klæddir listaþili og þak bárujárni. Á framhlið eru sex póstagluggar með sex rúðum og tveir samlægir á bakhlið. Útidyr eru á miðri framhlið og fyrir þeim vængjahurðir á okum. Á norðvesturgafli eru þrennar dyr, einar á hverri hæð, og fyrir þeim vængjahurðir á okum. Sex rúðu póstagluggi er hvorum megin dyra á miðhæð og þriggja rúðu hálfgluggi hvorum megin efstu dyra og yfir þeim gálgi.

Fordyri er inn af útidyrum og á því spjaldsettar vængjahurðir. Hver hæð hússins er einn salur og á hæðunum tveimur eru tvær stoðaraðir með skástífum eftir endilöngu húsinu. Veggir jarðhæðar eru klæddir spjaldaþili og miðhæðin klædd standþiljum, en syllur eru negldar utan á þiljurnar að ofan og neðan. Hluti norðausturveggjar er klæddur láréttum sléttum borðum. Slétt borðaklæðning er felld milli neðri brúna loftbita á hæðunum tveimur. Í risi eru gaflar óklæddir. Súðin norðaustan megin og í þremur stafgólfum suðvestan megin er klædd langsúð en hin stafgólfin að suðvestanverðu eru klædd rennisúð á langböndum. Húsið er ómálað að innan.


[1]Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð II. Varðveisluannáll 1863-1990, 354. Reykjavík 2000.

[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal pakkhúss í Ólafsvík.