Randulffssjóhús, Eskifirði
Byggingarár: 1882
Byggingarár: 1882, flutt 1890.
Athugasemd: Flutt tilsniðið til landsins frá Noregi og talið reist um 1882 á Hrúteyri við Reyðarfjörð en að líkindum flutt á núverandi stað 1890.
Hönnuður: Ókunnur.
Sjóminjasafn Austurlands tók við helmingi hússins 1980 og öllu húsinu 1994.[1]
Friðað af menntamálaráðherra 15. desember 1999 samkvæmt 1. mgr. 35. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989, friðun tekur til ytra borðs.[2]
Randulfssjóhús er einlyft timburhús með risþaki.Við bakstafn er einlyft skúrbygging með skúrþaki og valma upp af hliðum. Sjóhúsið stendur niðri í flæðarmáli og snýr suðurstafni að sjó. Meðfram vesturhlið þess, við framstafn og út frá miðjum stafninum, er staurabryggja. Hlaðinn sökkull er undir hliðum hússins en það stendur að öðru leyti á staurum og fellur sjór inn undir mestan hluta þess. Veggir eru klæddir vatnsklæðningu og frá þeim gengið með hornborðum og vindskeiðum. Skúrviðbygging er klædd slagþili og þök eru bárujárnsklædd. Á framstafni hússins eru tvennar breiðar dyr með rennihurðum, fyrir ofan þær á gaflhlaði eru tveir samlægir sex rúðu gluggar með miðpósti og gluggi með þriggja rúðu ramma hvorum megin þeirra. Efst er trékefli og lúga með hlera fyrir. Þriggja rúðu gluggi er á vesturhlið og dyr með rennihurð, tveir þriggja rúðu gluggar eru á gaflhlaði að norðanverðu, einn á austurhlið ásamt sex rúðu glugga. Gluggi með hlera fyrir er á þremur hliðum skúrs og vængjahurðir eru á vesturhlið og norðurhlið.
Á jarðhæð hússins eru þrjár stoðaraðir undir ásum eftir endilöngu húsi. Þiljað er með láréttum borðum á miðröðina og húsinu skipt í tvennt; í vestur- og austurhluta. Í vesturhluta við framgafl er stigi og á norðurgafli eru stórar dyr með þremur hurðarflekum fyrir að skúrviðbyggingu. Í austurhluta er stigi upp á loft og dyr á norðurgafli að skúrnum. Tvær lúgur eru á gólfi í hvorum hluta hússins, veggir eru óklæddir að innan og yfir er loft á bitum. Á efri hæð í suðurenda er súðargeymsla vestan megin upp af stiga, verbúð fyrir miðjum gafli og súðarherbergi inn af austan megin. Geymsluloft er í norðurhluta hússins, lítið afþiljað herbergi við norðurgafl að vestanverðu og opið upp á loft fyrir ofan verbúð í suðurenda. Veggir í verbúð eru klæddir láréttum sléttum panelborðum og súðarherbergi er klætt strikuðum og sléttum panelborðum og loft í herbergjunum eru panelklædd. Herbergi við norðurgafl er klætt sléttum panelborðum og loft er panelklætt. Að öðru leyti eru veggir og súð hússins óklædd að innan. Í súð hússins er reisifjöl ofan á þakásum sem liggja stafna á milli ofan á stoðum. Skúrveggir eru klæddir láréttum borðum og súð er borðaklædd á sperrur. Húsið er ómálað að innan.[1]Geir Hólm. Bréf til höfundar 1999.
[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Randulfssjóhúss.