Fara í efni
Til baka í lista

Reykjakirkja, Tungusveit

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1897

Hönnuður: Þorsteinn Sigurðsson forsmiður.[1]

Breytingar: Í öndverðu var sökkull steinhlaðinn, veggir voru klæddir sléttu járni að utan en málningarpappa að innan og hvelfingar panelklæddar.[2] Á árunum 1973–1976 var unnið að viðhaldi kirkjunnar og eftirtaldar breytingar gerðar: Steyptar stoðir undir veggi, veggir klæddir vatnsklæðningu að utan, veggir að innan og hvelfingar plötuklæddar, stöpull og turn smíðaðir nýir frá grunni og steypt gólf í stöpul.[3] Hönnuðir: Björn Guðnason og Jón Jakobsson.[4]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Reykjakirkja er timburhús, 7,72 m að lengd og 6,47 m á breidd, með kór undir minna formi, 2,40 m að lengd og 3,31 m á breidd, og tvískiptan turn við framstafn, 2,56 m að lengd og 2,68 m á breidd. Þakið er krossreist, brot á því ofarlega og lægri halli að mæni en risþak á kór, bæði klædd bárujárni. Kirkjan er klædd vatnsklæðningu og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír bogadregnir smárúðóttir steypujárnsgluggar, einn á hvorri hlið kórs, og einn heldur minni á framhlið stöpuls. Lítill gluggi er á framstafni kirkju hvorum megin stöpuls og hálfhringgluggi hvorum megin á stöpulhliðum. Stöpull nær upp að mæni kirkju og á honum er áttstrent þak. Á því stendur áttstrendur burstsettur turn með földum um fölsk hljómop og há áttstrend spíra yfir. Turnþök eru klædd sléttu járni. Fyrir kirkjudyrum er einföld hurð og bogagluggi yfir.

Norðan megin í forkirkju er stigi upp á söngloft yfir fremsta hluta framkirkju. Bogadregnar vængjahurðir eru að framkirkju og gangur inn af þeim að kór sem hafinn er yfir kirkjugólf um eitt þrep. Hvorum megin gangs eru aftursættir bekkir. Fjórar súlur eru undir sönglofti. Veggir eru klæddir sléttum plötum og yfir framkirkju er hvelfing en lágbogahvelfing yfir kór, báðar hvelfingar eru klæddar skoruðum plötum.



[1]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C. V, 174. Byggingarreikningur Reykjakirkju 1901.

[2]ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Skagafjarðarprófastsdæmi AA/12. Reykir 1899.

[3]ÞÍ. Biskupsskjalasafn 1994-AA/10. Reykir 1976; Júlíana Gottskálksdóttir. Kirkjur Íslands 5, Reykjakirkja, 100-114. Reykjavík 2005.

[4]Kristján Jóhannesson. Viðtal 1998.