Reykjakirkja, Tungusveit
Byggingarár: 1897
Hönnuður: Þorsteinn Sigurðsson forsmiður.
Saga
Elsta heimild um kirkju á Reykjum er í Sturlungu, þar sem sagt er frá aðdraganda Örlygsstaðabardaga 1238. Elsti máldagi kirkjunnar er úr máldagabók Auðunar biskups rauða frá 1318. Ekki kemur þar fram hverjum hún er helguð en í yngri máldögum segir að hún sé helguð Mikjáli erkiengli.
Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Lýsing
Reykjakirkja er timburhús, 7,72 m að lengd og 6,47 m á breidd, með kór undir minna formi, 2,40 m að lengd og 3,31 m á breidd, og tvískiptan turn við framstafn, 2,56 m að lengd og 2,68 m á breidd. Þakið er krossreist, brot á því ofarlega og lægri halli að mæni en risþak á kór, bæði klædd bárujárni. Kirkjan er klædd vatnsklæðningu og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír bogadregnir smárúðóttir steypujárnsgluggar, einn á hvorri hlið kórs, og einn heldur minni á framhlið stöpuls. Lítill gluggi er á framstafni kirkju hvorum megin stöpuls og hálfhringgluggi hvorum megin á stöpulhliðum. Stöpull nær upp að mæni kirkju og á honum er áttstrent þak. Á því stendur áttstrendur burstsettur turn með földum um fölsk hljómop og há áttstrend spíra yfir. Turnþök eru klædd sléttu járni. Fyrir kirkjudyrum er einföld hurð og bogagluggi yfir.
Norðan megin í forkirkju er stigi upp á söngloft yfir fremsta hluta framkirkju. Bogadregnar vængjahurðir eru að framkirkju og gangur inn af þeim að kór sem hafinn er yfir kirkjugólf um eitt þrep. Hvorum megin gangs eru aftursættir bekkir. Fjórar súlur eru undir sönglofti. Veggir eru klæddir sléttum plötum og yfir framkirkju er hvelfing en lágbogahvelfing yfir kór, báðar hvelfingar eru klæddar skoruðum plötum.