Fara í efni
Til baka í lista

Reykjanesviti, Reykjanes

Friðlýst mannvirki

Byggingarár: 1907

Byggingarár: 1907-1908.

Hönnuðir: Frederik Kiørboe arkitekt og Thorvald Krabbe verkfræðingur.

Breytingar: Árið 1929 var byggt við vitann anddyri og gashylkjageymsla úr steinsteypu eftir teikningum Benedikts Jónassonar verkfræðings. Um 1980 var sett nýtt þak á ljóshúsið og lofttúðu  breytt. Handrið úr steypujárni umhverfis ljóshúsið var fjarlægt um 1990 og stálhandrið sett í staðinn.[1]

Friðaður af menntamálaráðherra 1. desember 2003 samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001. Friðunin tekur til ytra og innra borðs vitans, ljóshúss og viðbygginga. Þar með eru talin linsa, linsuborð og lampi, hurðir, gluggar, stigi og handrið. Friðunin nær einnig til umhverfis vitans í 100 m radíus út frá vitanum og göngustígs með þrepum frá fyrrum vitavarðarhúsi undir Bæjarfelli.[2]

 

Reykjanesviti er sívalur kónískur turn, 20 m hár, og stendur á breiðri 2,2 m hárri undirstöðu. Ljóshúsið er 4,5 m á hæð og er heildarhæð vitans 26,7 m. Veggir eru tvískiptir. Ytra byrði er úr tilhöggnu grjóti en innra byrði úr steinsteypu. Þykkt þeirra við sökkul er 3,2 m en efst er veggþykktin 1,2 m. Þvermál turnsins neðst er 9 m en 5 m efst. Ytra byrði veggja hallar inn að ofan en innra byrði er lóðrétt. Stigahús, 2,5 m í þvermál, er í miðjum turni og efst í turninum undir ljóshúsi er vaktherbergi. Á turninum eru mjóir lóðréttir gluggar á stigahúsinu en tveir stærri gluggar á vaktherbergi uppi undir þakskeggi. Efst á turninum er stallað þakskegg og ofan á því járnhandrið umhverfis svalirnar og er gengið út á þær um anddyri sem er byggt við ljóshúsið. Veggir ljóshúss eru úr steypujárni en milli lóðréttra gluggarima eru bognar rúður og keilumyndað eirþak yfir.



[1]ÞÍ. Teikningasafn. Skúffa 31, númer 16. Reykjanesviti, dags. 20. júlí 1907; Skjal. Sigl. Teikningasafn. Teikning A2, Reykjanesviti, dags. 5. september 1907; Thorvald Krabbe. Om Islands Fyrvæsen, 26-27;Guðmundur Bernódusson, Guðmundur L. Hafsteinsson og Kristján Sveinsson. Vitar á Íslandi, 55-58, 206-208. Kópavogur 2002.

[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Reykjanesvita.