Reykjavíkurhöfn - Gamla höfnin
Með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 104/2001 um húsafriðun friðaði mennta- og menningarmálaráðherra að fenginni tillögu Húsafriðunarnefndar elstu mannvirkin við Gömlu höfnina í Reykjavík 20. desember 2012. Friðunin nær til eftirfarandi steinhleðslna sem gerðar voru á árunum 1913 til 1945:
Ingólfsgarður (1913)
Norðurgarður (1915)
Steinhleðslur við Suðurbugt (1928-1930)
Ægisgarður, eystri hleðsla (1932-1935)
Steinhleðslur við Grandagarð 8 og verbúðarbryggjur, frá Rastargötu til Bótabryggju (1940-1945)
Framkvæmdirnar sem ráðist var í við gerð hlaðinna varnargarða í Reykjavíkurhöfn á árunum frá 1913 til 1916 voru þær stærstu sem unnar höfðu verið á Íslandi frá öndverðu. Þeir garðar sem eftir standa frá þessum tíma við Ingólfs- og Norðurgarð bera framfarahug Reykvíkinga og vönduðu handverki mjög gott vitni. Þessir garðar auk þeirra sem unnir voru á svipaðan máta fram eftir fyrri helmingi tuttugustu aldar teljast vera tímamótaverk og því einstaklega mikilvæg í þróunar- og menningarsögu Íslands.
Framkvæmdir við hafnargerðina hófust árið 1913. Notuð voru stórvirk tæki eins og járnbraut og tveir stórir löndunarprammar. Fyllingarefni var tekið í Skólavörðuholti og Öskjuhlíð. Gerður var skjólgarður á Grandanum út í Örfirisey og síðan frá eynni til suðausturs, Norðurgarður. Annar garður lá út frá Batteríinu, Batterísgarður eða Ingólfsgarður, eins og hann heitir í dag, og myndaði hafnarmynnið ásamt garðinum úr Örfirisey. Fyrsta skipið lagðist að hafnargarði í Reykjavík árið 1915 við Batterísgarðinn, svokallaða Kolabryggju.
Eftir að Reykjavíkurhöfn var formlega tekin í notkun var hún lítið annað en óútfyllt umgjörð, sem á næstu árum og áratugum var fyllt upp í með nýjum hafnarbökkum og bryggjum. Í austurhluta hafnarinnar var unnið að gerð hafnarbakka og uppfyllingu á árunum 1918–1921. Þar höfðu togarafélögin aðsetur og Kol og salt, auk fleiri kolasala. Faxagarður var byggður á árunum 1925–1927 og einnig lítil trébryggja fyrir austan hann. Á árunum 1929–1938 var Grófarbryggja ásamt 80 metra löngu bólvirki vestan hennar reist og einnig verbúðaruppfylling ásamt tveimur bátabryggjum og Ægisgarði. Á árunum1938–1941 bættist við uppfylling milli elsta hafnarbakkans og austur-uppfyllingarinnar. Árið 1941 voru hafnarbakkar og bryggjur orðin 1460 metrar á lengd, en höfðu árið 1917 verið einungis 250 metrar.
Heimildir:
Anna Lísa Guðmundsdóttir, Páll V. Bjarnason, Helga Maureen Gylfadóttir og Guðný Gerður Gunnarsdóttir (2005). Húsakönnun og fornleifaskráning vegna fyrirhugaðs tónlistar- og ráðstefnuhúss við Reykjavíkurhöfn. Reykjavík: Minjasafn Reykjavíkur. Skýrsla nr. 117.
Guðjón Friðriksson (1991). Saga Reykjavíkur. Bærinn vaknar 1870-1940. Fyrri hluti. Reykjavík: Iðunn.