Fara í efni
Til baka í lista

Reynistaðarkirkja, Skagafjörður

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1868

Byggingarár: 1868–1870.

Hönnuður: Magnús Árnason forsmiður.[1]

Breytingar: Forkirkja smíðuð 1950.[2]

Hönnuður: Ókunnur.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Reynistaðarkirkja er timburhús, 9,27 m að lengd og 5,49 m á breidd, með forkirkju, 1,76 m að lengd og 2,54 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með risþak en rislítið þak er á forkirkju. Á hverri hlið hans er bogadregið hljómop með vængjahlerum og undir þeim band umhverfis turninn. Hann stendur á lágum stalli. Kirkjan er klædd standandi plægðri borðaklæningu, strikaðri á brúnum,  þök bárujárni og stendur á steinhlöðnum og steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar, þrír á kórbaki; einn hvorum megin altaris og einn heldur minni ofarlega á stafninum yfir prédikunarstól. Gluggi er á framstafni og annar á suðurhlið forkirkju. Í þeim er miðpóstur og tveir þriggja rúðu rammar. Strikaðar bríkur eru yfir gluggum. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir.

Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir og gangur inn af þeim að kór sem skilinn er frá framkirkju með kórþili. Það er klætt þiljum undir miðslá en renndum pílárum undir efri slá. Yfir kórþilinu hvorum megin kórdyra er bogi með laufsveigðum endum sem gengur upp undir áttstrendra þverslá. Í kórdyrum eru stafir, áttstrendir að neðan en sívalir að ofan, og kórdyrabogi með laufsveigum til enda. Hvorum megin gangs eru aftursættir þverbekkir en veggbekkir umhverfis í kór. Prédikunarstóll er fyrir miðjum kórgafli ofan og innan altaris og stigi að honum sunnan megin. Setuloft á bitum er yfir fremri hluta framkirkju og þiljaður stigi við vesturgafl norðan megin. Á loftinu eru bekkir og fjórar turnstoðir. Veggir forkirkju eru plötuklæddir en kirkjuveggir klæddir standþiljum. Yfir innri hluta framkirkju og kór er reitaskipt hvelfing með máluðum stjörnum en risloft yfir setulofti klætt skarsúð á sperrur og flatt loft undir turni.



[1]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C. V, 172. Byggingarreikningur Reynistaðarkirkju 1872.

[2]ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Skagafjarðarprófastsdæmi AA/18. Reynistaður 1951; Júlíana Gottskálksdóttir. Kirkjur Íslands 5, Reynistaðarkirkja, 137-153. Reykjavík 2005.