Fara í efni
Til baka í lista

Sæbyhús, Siglufirði, Norðurgata 3

Friðlýst hús

Byggingarár: 1886

Hönnuður: Andreas Christian Sæby beykir.

Breytingar: Lengt til norðurs fljótlega eftir að það var reist og miðjukvistur smíðaður á húsið 1915. Gólf jarðhæðar var lækkað um 14 cm árið 1997.[1]

Hönnuðir: Ókunnir en arkitektarnir Grétar Markússon og Stefán Örn Stefánsson höfðu umsjón með viðgerð hússins og lækkun á gólfi þess.

Friðað í A-flokki af bæjarstjórn 26. ágúst 1977 samkvæmt 2. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[2]

 

Sæby-húsið er einlyft timburhús, 10,22 m að lengd og 3,88 m á breidd, með risþaki og stórum miðjukvisti sem gengur þvert í gegnum þakið og skagar hann fram yfir framhlið þess. Inngönguskúr með skúrþaki er við framhlið hússins, 1,82 m að lengd og 1,26 m á breidd. Skúrinn er undir framhorni miðjukvists að sunnanverðu en stoð er undir framhorni hans að norðanverðu. Við bakhlið er bakdyraskúr með lágu tyrfðu risþaki, 5,62 m að lengd og 2,2 m á breidd. Reykháfur er upp úr þaki við kvistinn á bakhliðinni. Húsið og inngönguskúr standa á límdum steinhlöðnum sökkli en sökkull undir bakdyraskúr er steinsteyptur. Veggir eru klæddir lóðréttum plægðum borðum en kvistir klæddir vatnsklæðningu sneiddri á brúnum og hornborðum. Gengið er frá kvistum með strikaðri syllu undir þakskeggi sem leidd er inn á framstafna. Á framhlið hússins eru fjórir sex rúðu póstagluggar auk tveggja á kvisti, einn er á suðurstafni og annar á bakkvisti. Tveggja rúðu gluggi er á hvorri gaflhyrnu hússins og á bakdyraskúr eru tveir fjögurra rúðu gluggar. Dyr eru á hvorum skúr. Þök eru bárujárnsklædd en torfþekja á bakdyraskúr.

Inn af inngönguskúr er eldhús í miðju húsi. Úr því er gengið í stofu í hvorum enda hússins, bakdyraskúr með forstofu og baðherbergi og um stiga upp á loft. Á loftinu er framloft undir bakkvisti, herbergi í framkvisti og kames í hvorum enda. Veggir á jarðhæð hússins eru klæddir standþiljum og í þeim er bitaloft lagt gólfborðum. Lektur eru ofan á bitum og á þeim ný gólfborð rishæðar. Í skúrunum eru veggir klæddir standþili og loft panelklædd. Veggir rishæðar eru klæddir strikuðum panelborðum og framloft er einnig klætt standþiljum. Loft í herbergi, framlofti og súð í suðurkamesi eru panelklædd en í norðurkamesi eru þakborð á sperrum. Jarðhæð hússins og hluti bakdyraskúrs eru máluð að innan svo og framloft og loft í kvistherbergi. Að öðru leyti er rishæð ómáluð að innan.



[1]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Sæby-hús.

[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Sæby-húss.