Fara í efni
Til baka í lista

Sauðaneskirkja, Langanes

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1889

Byggingarár: 1888–1889.

Hönnuður: Björgólfur Brynjólfsson forsmiður frá Skjöldólfsstöðum í Breiðdal, S.-Múl.

Athugasemd: Efni í grind var tilsniðið í Mandal í Noregi.[1]

Breytingar: Í öndverðu var þak kirkjunnar klætt spæni og allir veggir klæddir listaþili en síðar voru þak og kórbak klædd bárujárni.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Sauðaneskirkja er timburhús, 10,15 m að lengd og 6,38 m á breidd, með turn við vesturstafn, 1,50 m að lengd og 2,28 m á breidd. Turninn gengur tæplega hálfa lengd sína inn á þak kirkjunnar og á honum er píramítaþak klætt sléttu járni. Þakið er krossreist og klætt bárujárni. Kirkjan er klædd listaþili, nema kórbak sem er bárujárnsklætt, og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar og einn heldur minni á framhlið turns. Í þeim er krosspóstur og rammar með sex rúðum. Efst á framhlið turns er hringgluggi en ferstrendur hleri fyrir hljómopi á hvorri hlið. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir og þrískiptur þvergluggi yfir.

Framkirkja nær að framstafni kirkju. Að framkirkju eru spjald- og glersettar vængjahurðir og gangur inn af þeim. Hvorum megin gangs eru þverbekkir en langbekkir og veggbekkir í kór. Prédikunarstóll er í fremstu bekkjarröð sunnan megin. Söngsvalir eru yfir fremsta hluta framkirkju og sveigður stigi í norðvesturhorni. Dyr eru af söngsvölum inn í turninn. Kirkjan er klædd strikuðum panelborðum og efst á veggjum er strikasylla uppi undir panelklæddri hvelfingu stafna á milli.



[1]ÞÍ. Byggingarreikningur Sauðaneskirkju 1888-1889.

[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Sauðaneskirkja.