Fara í efni
Til baka í lista

Sauðárkrókskirkja, Sauðárkrókur

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1892

Hönnuður: Þorsteinn Sigurðsson forsmiður.[1]

Breytingar: Á árunum 19571958 var unnið að viðgerð kirkjunnar og eftirtaldar breytingar gerðar: Turn rifinn og smíðaður nýr jafnbreiður kirkjunni og steyptur undir hann kjallari, veggir að innan og hvelfingar klæddar þilplötum. Hönnuður: Stefán Jónsson arkitekt. Árið 1989 var kór færður og kirkjan lengd um 3,6 m til vesturs. Hönnuður: Þorsteinn Gunnarsson arkitekt.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Sauðárkrókskirkja er timburhús, 16,42 m að lengd og 8,85 m á breidd, með kór, 3,62 m að lengd og 5,06 m á breidd, og stöpul í framstafni, sem snýr til austurs, 0,53 m að lengd og 3,33 m á breidd. Efri hluti stöpuls er ferstrendur, situr á kirkjuþaki og á honum er áttstrent þak. Yfir því rís áttstrendur turn, burstsettur, búinn oddbogalöguðum hljómopum og hárri spíru. Þök kirkju og kórs eru krossreist og bárujárnsklædd en turnþök klædd eir. Kirkjan er klædd vatnsklæðningu og stendur á steinhlöðnum og steinsteyptum sökklum. Á hvorri hlið kirkju eru sex smárúðóttir oddbogagluggar úr steypujárni og einn heldur minni á hvorri hlið kórs. Lítill oddbogagluggi er á framstafni kirkju hvorum megin stöpuls, einn á hvorri hlið stöpuls en tveir á framhlið hans. Kirkjudyr eru inndregnar og fyrir þeim spjaldsettar vængjahurðir, oddbogadregnar og glerjaðar efst. Á vesturstafni framkirkju norðan megin eru dyr og í þeim spjaldsett hurð og oddbogagluggi yfir.

Í forkirkju eru stigar hvorum megin og spjaldsettar oddbogahurðir að framkirkju. Inn af þeim er gangur að kór sem hafinn er yfir kirkjugólf um eitt þrep. Bekkir eru hvorum megin gangs. Söngloft er yfir fremsta hluta framkirkju og setsvalir inn með hliðum. Við vesturgafl framkirkju er frambrún setsvala bogadregin inn að kórdyrum. Undir frambrún setsvala eru sex stoðir hvorum megin, ferstrendar neðst en rúnnaðar að ofan, og hálfsúla í kórdyrum. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum. Yfir framkirkju er plötuklædd hvelfing og önnur minni yfir kór.



[1]ÞÍ.BiskupsskjalasafnC. V, 174. Byggingarreikningur Sauðárkrókskirkju 1894.

[2]ÞÍ. Skagafjarðarprófastsdæmi AA/18. Sauðárkrókur 1962; Kristmundur Bjarnason. Sauðárkrókskirkja og formæður hennar. Akureyri 1992; Kristmundur Bjarnason og Þorsteinn Gunnarsson. Kirkjur Íslands 5, Byggingarsaga Sauðárkrókskirkju,169-180. Reykjavík 2005; Þorsteinn Gunnarsson. Sauðárkrókskirkja. Stækkun og endurbætur; Kirkjur Íslands 5, Sauðárkrókskirkja, 180-188. Reykjavík 2005.