Fara í efni
Til baka í lista

Sauðlauksdalskirkja, Sauðlauksdalskirkja

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1863

Hönnuður: Niels Björnsson forsmiður að talið er.

Breytingar: Upphaflega voru turn við framstafn kirkjunnar og stallar á þakbrúnum.[1] Turninn var rifinn og í hans stað var þakturn smíðaður á kirkjuna 1901–1902.[2]

Hönnuður: Ókunnur.

Friðuð í A-flokki af menntamálaráðherra 3. apríl 1979 samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[3]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Sauðlauksdalskirkja er timburhús, 11,06 m að lengd og 5,32 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er ferstrendur turn með píramítaþaki sem gengur út undan sér neðst. Framhlið turns gengur 0,17 m fram úr framstafni kirkju. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar með miðpósti og þriggja rúðu römmum, einn heldur minni yfir dyrum og þriggja rúðu gluggi efst á framhlið turns. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir til hlífðar spjaldsettri hurð.

Inn af kirkjudyrum er gangur inn að kór sem hafinn er yfir kirkjugólf um eitt þrep. Bekkir eru hvorum megin gangs og við veggi í kór. Hefðarstúkur eru í innstu bekkjum framkirkju og hurð fyrir. Bök þeirra eru klædd spjaldaþili og yfir þeim eru randskornar grindur en strikuð brík efst. Kórþil er í baki kórbekkja, kórstafir í kórdyrum og milli þeirra oddbogalöguð drótt. Prédikunarstóll með himni yfir er sunnan kórdyra. Setuloft er yfir fremsta hluta framkirkju og stigi við framgafl norðan megin. Veggir eru klæddir spjaldaþili. Þverbitar og skammbitar eru yfir allri kirkjunni og risloft klætt panelborðum neðan á sperrur.


[1]Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940, 231. Reykjavík 1998.

[2]ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Barðastrandaprófastsdæmi AA/7. Sauðlauksdalskirkja 1902.

[3]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Sauðlauksdalskirkju.