Fara í efni
Til baka í lista

Sigurhæðir, Eyrarlandsvegur 3

Friðlýst hús

Byggingarár: 1903

Hönnuðir: Ókunnir.

Friðað í B-flokki af bæjarstjórn 4. október 1977 samkvæmt 2. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[1]

 

Sigurhæðir er einlyft portbyggt timburhús með risþaki, 10,16 m að lengd og 7,58 m á breidd. Húsið stendur á steinhlöðnum kjallara og miðjukvistur með risþaki er á hvorri hlið hússins. Viðbyggingar eru við þrjár húshliðar, anddyri með valmaþaki við norðurstafn, 1,31 m að lengd og 1,63 m á breidd, inngönguskúr með skúrþaki við bakhlið, 2,62 m að lengd og 1,32 m á breidd, og forstofa með valmaþaki við suðurstafn, 2,23 m að lengd og 3,23 m á breidd. Að viðbyggingum við suðurstafn og bakhlið eru trétröppur en steinsteyptar tröppur við norðurstafn. Kjallaraveggur er múrsléttaður og húsið er klætt láréttum strikuðum plægðum borðum og hornborðum en klæðningarborð á forstofu við suðurstafn eru skásett. Umhverfis húsið er hæðarskilsband með tannstaf og oddstaf. Bandið gengur fyrir forstofu við suðurstafn uppi undir þakskeggi. Á framhlið kjallara eru þrír fjögurra rúðu gluggar með miðpósti, átta rúðu steypujárnsgluggi er á bakhlið og annar á norðurstafni. Á húsinu eru átta fjögurra rúðu krosspóstagluggar; fjórir á framhlið, tveir á suðurstafni einn á bakkvisti og einn á norðurstafni. Einn tvípósta krossgluggi með sex rúðum er á framkvisti, annar á suðurstafni og einn er á bakhlið hússins. Tveggja rúðu gluggi er á norðurstafni og annar á norðuranddyri og tveir einnar rúðu gluggar eru á hvorri gaflhyrnu hússins og tveir minni á bakdyraskúr. Efst á gaflhyrnum hússins og kvista er skásettur gluggi. Á suðuranddyri eru stórir gluggar með smáum lituðum rúðum og útidyr á austurhlið. Bakdyr eru á austurhlið norðuranddyris og suðurhlið bakdyraskúrs og kjallaradyr eru á vesturhlið skúrsins. Skornar sperrutær eru undir þakskeggi og þakbrúnum og reykháfur á mæni.

Inn af útidyrum er forstofa, herbergi í suðvesturhluta hússins, fremri og innri stofa eru við framhlið hússins, eldhús fyrir miðju við bakhlið, salerni í norðvesturhorni og gangur og stigi inn af norðurforstofu. Upp af stiga er framloft og eldhús, stofa við suðurgafl, kvistherbergi að framanverðu, salerni í norðvesturhorni, herbergi er við norðurgafl og súðarkompa í norðausturhorni. Veggir í suðurforstofu eru klæddir málningarpappa, herbergi og fremri stofa eru veggfóðruð og innri stofa er klædd háu brjóstþili með spjöldum og veggfóðri að ofan. Loft í forstofu, herbergi og stofum eru klædd málningarpappa. Veggir og loft í eldhúsi, bakdyraskúr, salerni, gangi og norðurforstofu eru klædd strikuðum panelborðum. Veggir á framlofti, í eldhúsi, stofu, kvistherbergi, súðarkompu og á salerni eru panelklæddir en veggfóðraðir í norðurherbergi. Loft í kvistherbergi og norðurherbergi eru plötuklædd og loft og súð í stofu. Súð og loft á framlofti, eldhúsi, súðarkompu og salerni eru panelklædd. Í kjallara eru útveggir múrhúðaðir og milliveggir úr standþili og loft klætt milli bita. Húsið er málað að innan að frátöldum bakdyraskúr og hluta kjallara.



[1]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Sigurhæða.