Fara í efni
Til baka í lista

Silfrastaðakirkja, Akrahreppur, Skagafirði

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1896

Hönnuður: Þorsteinn Sigurðsson forsmiður.

Athugasemd: Smíði turns lauk ekki fyrr en 1902.[1]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. L nr. 88/1989.

 

Silfrastaðakirkja er timburhús áttstrent að grunnformi, 6,47 m að þvermáli en hliðar 2,70 m að lengd, og með tvískiptan turn við vesturstafn, 1,49 m að lengd og 2,05 m á breidd. Þakið er krossreist upp af hliðarveggjum og tengt stöpli en gaflsneitt yfir kór og hvorum megin stöpuls. Kirkjan er klædd sléttu járni og stendur á steinhlöðnum steinsteyptum sökkli. Á sex hliðum kirkju eru bogadregnir smárúðóttir steypujárnsgluggar og einn minni á framhlið stöpuls. Stöpull er mjór að neðan en efri hluti hans breiðari og gengur inn á þak kirkju. Á honum er áttstrent þak og á því áttstrendur turn með átta stoðum sett burstlaga opum undir áttstrendri spíru. Fyrir kirkjudyrum er spjaldsett hurð og bogagluggi yfir.

Í forkirkju er stigi upp á stöpulloft, þar hanga tvær klukkur í ramböldum. Að framkirkju er bogadregin spjaldahurð og gangur inn af henni að kór. Aftursættir skásettir bekkir eru hvorum megin gangs. Veggir forkirkju og kirkju eru klæddir strikuðum panelborðum. Flatt loft er meðfram veggjum og yfir miðri kirkju er áttstrent hvolfþak klætt strikuðum panelborðum.


[1]ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Skagafjarðarprófastsdæmi AA/12. Silfrastaðir 1896; Biskupsskjalasafn C. V, 174. Byggingarreikningur Silfrastaðakirkju 1903; Júlíana Gottskálksdóttir. Kirkjur Íslands 5, Silfrastaðakirkja, 209-221. Reykjavík 2005.