Sjávarborgarkirkja, Skagafirði
Byggingarár: 1853
Hönnuður: Guðjón Jónsson snikkari.
Saga
Elsta heimild um kirkjuna er máldagabók Auðunar rauða Þorbergssonar Hólabiskups, sem talin er frá 1318. Hún var þá helguð heilögum Andrési postula. Árið 1892 var kirkjan lögð niður og ný reist á Sauðárkróki. Kirkjuhúsið stóð þó ennþá og var eftir þetta notað sem geymsla. Árið 1972 var kirkjan gefin Þjóðminjasafninu og hún tekin á þjóðminjaskrá. Ákveðið var að flytja kirkjuna á nýjan stað og gera við hana. Unnið var að viðgerð kirkjunnar næstu árin. Viðgerðinni var lokið árið 1983 og var hún þá endurvígð.
Kirkjan var sett á fornleifaskrá 6. október 1972, en lagaheimild skorti sbr. II. og IV. kafla þjóðminjalaga nr. 52/1969. Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Lýsing
Sjávarborgarkirkja er timburhús, 8,40 m að lengd og 4,22 m á breidd. Þakið er krossreist og lítill trékross upp af framstafni. Kirkjan er klædd tjörguðu slagþili og rennisúð og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru tveir póstagluggar með tveimur þriggja rúðu römmum, fjögurra rúðu gluggi er ofarlega á hvorum stafni og einn í kvisti á austurhlið þaks. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir til hlífðar spjaldsettri hurð.
Inn af dyrum er gangur inn kirkju og bekkir hvorum megin hans. Lágt kórþil klætt póstaþili er á mörkum framkirkju og kórs. Í kórdyrum eru kórstafir upp undir þverbita. Prédikunarstóll er framan kórþils austan megin undir kvistglugga. Veggbekkir eru umhverfis í kór að altari. Klukka hangir í ramböldum á klukknastól í fremsta stafgólfi framkirkju. Veggir eru klæddir póstaþili og þverbitar eru yfir framkirkju og kór. Yfir kirkju er loft opið upp í rjáfur, klætt skarsúð á sperrur. Kirkjan er ómáluð að innan.