Fara í efni
Til baka í lista

Skeggjastaðakirkja, Skeggjastaðahreppur, N-Múlasýsla

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1845

Hönnuður: talinn vera Ólafur Briem forsmiður á Grund en yfirsmiður kirkjunnar Guðjón Jónsson forsmiður á Akureyri er einnig talinn geta verið hönnuður hennar.[1]

Breytingar: Viðbygging með þakturni reist við norðurhlið 1961–1962.

Hönnuðir: Bjarni Ólafsson húsasmíðameistari og Ragnar Emilsson húsateiknari í Reykjavík.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Skeggjastaðakirkja er timburhús, 8,91 m að lengd og 5,23 m á breidd. Við norðurhlið er skrúðhús, 5,05 m að lengd og 2,30 m á breidd, og á þakinu er klukknaport á fjórum stoðum. Þök eru krossreist og klædd listasúð en hátt íbjúgt píramítaþak klukknaportsins skarsúðarklætt. Kirkjan stendur á steinsteyptum sökkli og veggir eru klæddir listaþili þar sem skiptast á tveir samlægir listar og undirborð. Á hvorri hlið kirkju eru tveir póstagluggar með tveimur áttarúðu römmum og aðrir tveir á kórbaki en fjögurra rúðu gluggi uppi á stafninum og annar gegnt honum á framstafni. Hvorum megin kirkjudyra er hálfgluggi með átta rúðum. Kvistgluggi er á suðurþaki yfir prédikunarstól. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir til hlífðar spjaldsettri hurð. Hálfgluggi er hvorum megin á skrúðhúsi og póstgluggi á stöfnum með tveimur átta rúðu römmum. Dyr eru á vesturhlið skrúðhúss með spjaldsettri hurð.

Inn af kirkjudyrum er gangur inn að kór og annar norðan megin að dyrum að skrúðhúsi. Kór er skilinn frá framkirkju með kórþili, klæddu póstaþili að neðan og renndum pílárum að ofan upp undir þverbita. Í kórdyrum eru kórstafir, ferstrendir að neðan en sívalir að ofan. Bekkir eru hvorum megin gangs, innstu bekkir tvísættir, en veggbekkir umhverfis í kór. Prédikunarstóll er framan kórþils sunnan megin. Veggir eru klæddir póstaþili og þverbitar eru yfir allri kirkjunni. Hringjaraloft er í tveimur fremstu stafgólfum og stigi við vesturgafl norðan megin. Yfir kirkjunni er skarsúðarloft á sperrum.


[1]Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940, 236. Reykjavík 1998.

[2]Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð II. Varðveisluannáll 1863-1990. Verndunaróskir, 48. Reykjavík 2000; Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Skeggjastaðakirkja.