Fara í efni
Til baka í lista

Skeiðflatarkirkja, Mýrdalshreppur, V-Skaftafellssýsla

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1900

Hönnuður: Samúel Jónsson forsmiður.

Breytingar: Í upphafi var kórbak múrhúðað en kirkjan annars klædd bárujárni. Gluggum var breytt um 1996 og kirkjan klædd báruðum stálplötum með innbrenndum lit.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Skeiðflatarkirkja er timburhús, 11,22 m að lengd og 6,83 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er mjór áttstrendur burstsettur turn með hljómop á framhlið og áttstrendri spíru. Hann stendur á breiðum ferstrendum stalli. Kirkjan er klædd bárustáli og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir gluggar. Í þeim er miðpóstur og þverpóstar um sex rúður auk þverrúðu efst með tígullaga rimum að innan. Á framstafni yfir kirkjudyrum eru þrír sex rúðu póstagluggar, heldur minni en aðrir kirkjugluggar. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og þvergluggi yfir.

Forkirkja er þiljuð af framkirkju með þverþili. Í henni sunnan megin er skrúðhús en stigi norðan megin. Á þverþilinu eru spjaldsettar vængjahurðir að framkirkju og gangur inn af að kór sem hafinn er yfir kirkjugólf um eitt þrep. Bekkir hvorum megin gangs og veggbekkir í kór. Söngloft er með þverum framgafli og setsvalir inn með hliðum. Undir þeim eru stoðir með súluhöfði og tvær turnstoðir á sönglofti. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum. Efst á þeim er strikasylla sem leidd er fyrir kórgafl að flatsúlum hvorum megin altaris. Á þeim er súluhöfuð og bogi á milli yfir altarinu. Yfir kirkjunni er reitaskipt stjörnusett hvelfing stafna á milli.



[1] ÞÍ. Bps. C, V. 54. Bréf 1903. Skýrsla um kirkjur í Vestur-Skaftafellsprófastsdæmi í fardögum árið 1902.

[2] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Skeiðflatarkirkja.