Skemma úr torfi, Öxney, Breiðafirði
Byggingarár: 1224
Byggingarár: Óþekkt.
Athugasemd: Skemman er talin byggð í sömu tóft og fornt bænhús sem getið er um í Öxney í máldaga Narfeyrarkirkju 1224. Bænhúsið virðist vera aflagt fyrir 1600 og notað sem skemma eftir það en var einnig notað sem fjárhús um miðja 20. öld.[1] Endurbyggingarár og hönnuðir: Ókunn.
Friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Skemman í Öxney er torfhús, um 6,50 m að lengd og 5,70 m á breidd en 4,30 x 2,15 m að innanmáli. Á húsinu er lág tyrft risþak og við suðurhlið og austurstafn eru tóftir fjárhúsa. Veggir eru hlaðnir úr grjóti og torfi og framstafn er klæddur listaþili og tvöföldum vindskeiðum. Dyr eru á miðjum stafni og einnar rúðu gluggi yfir og um þau sléttir faldar.
Að innanverðu eru veggir grjóthlaðnir með torflagi efst. Við veggi eru stoðir og skástoðir, veggsyllur með þverbitum, sperrur yfir með langböndum og bárujárn undir torfþekju.
[1]Árni Björnsson, Eysteinn G. Gíslason og Ævar Petersen. Breiðafjarðareyjar, 91-94. Árbók Ferðafélags Íslands 1989.