Fara í efni
Til baka í lista

Skinnastaðarkirkja, Öxarfjarðarhreppur, N-Þingeyjarsýslu

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1854

Hönnuður: Þórarinn Benjamínsson forsmiður frá Akurseli í Öxarfirði.

Breytingar: Arngrímur Gíslason málari skrautmálaði kirkjuna að innan 1863 og þá voru kórstafir og kórbogi settir í kirkjuna. Þakið var pappalagt 1880, þakturn rifinn af kirkjunni og söngloft smíðað í hana árið 1900. Veggir voru múrhúðaðir 1937 voru, þak klætt bárujárni, gluggum breytt og skorsteinn steyptur við norðurhlið. Árið 1954 endurmálaði Helgi Gunnlaugsson á Hafursstöðum skreyti kirkjunnar og sama ár var nýr turn smíðaður á hana.

Árið 2002 var múrhúðun brotin af og veggir klæddir strikaðri og plægðri borðaklæðningu og gluggar smíðaðir með upprunalegu sniði. Snorri Guðvarðsson málari málaði kirkjuna að utan og innan og lagaði skrautmálun Arngríms. [1]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Skinnastaðarkirkja er timburhús, um 9,5 m að lengd og 5,4 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er ferstrendur turn með íbjúgu píramítaþaki. Veggir eru klæddir lóðréttri strikaðri og plægðri borðaklæðningu, þak bárujárnsklætt en turn klæddur sléttu járni og kirkjan stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru tveir 12 rúðu gluggar, aðrir þrír á kórbaki og einn á gaflhlaði framstafns. Á hvorum hliðarvegg turns er tveggja rúðu gluggi. Fyrir  kirkjudyrum er spjaldahurð.

Inn af dyrum er gangur að kór sem skilinn er frá framkirkju með lágu kórþili klæddu póstaþili. Í kórdyrum eru áttstrendir kórstafir með renndum súlum efst og boga yfir. Prédikunarstóll og skírnarfontur eru framan kórþils sunnan megin. Þverbekkir eru hvorum megin gangs en veggbekkir í kór. Veggir eru klæddir standþiljum en brjóstlisti er umhverfis kirkjuna undir gluggum. Setuloft á bitum og fjórum áttstrendum stoðum er yfir fremri hluta framkirkju og stigi við framgafl norðan megin. Yfir kirkjunni er loft opið upp undir mæni og klætt skarsúð á sperrur.


[1]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Skinnastaðakirkja.