Fara í efni
Til baka í lista

Staðarbakkakirkja, Húnaþing vestra

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1890

Hönnuður: Halldór Bjarnason bóndi og kirkjusmiður frá Litlugröf í Borgarhreppi.[1]

Breytingar: Í öndverðu var kirkjan öll klædd pappa að utan en bjúgstallur undir turni og turnþak klædd sinki og hún stóð á steinhlöðnum sökkli.[2] Þak var klætt bárujárni 1897 og suðurhlið og framstafn 1927. Á árunum 19801983 var gert við kirkjuna og þá m.a. steyptur sökkull undir hana og norðurhlið og kórbak klædd bárujárni fyrsta sinni og stoðir settar undir setuloft og turn.[3]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Staðarbakkakirkja er timburhús, 8,90 m að lengd og 6,10 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er hár ferstrendur turn með krossreist þak. Hann stendur á bjúgstalli. Undir þakskeggi turns eru skornir sperruendar og randskornar vindskeiðar undir þakbrúnum. Kirkjan er bárujárnsklædd, bjúgstallur klæddur sléttu járni en turn listaþili, og hún stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar með miðpósti og tveimur þriggja rúðu römmum, einn heldur minni er á framstafni og lítill gluggi er á framhlið turns. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir.

Inn af dyrum er gangur að kór. Lágt kórþil er í bökum innstu bekkja og prédikunarstóll framan þess sunnan megin. Þverbekkir eru hvorum megin gangs en veggbekkir umhverfis í kór að altari. Setuloft með langbekkjum er yfir framkirkju inn að annarri gluggaröð og stigi við vesturgafl sunnan megin. Undir því eru fjórar stoðir en tvær á loftinu undir turni. Veggir eru klæddir sléttum panelborðum. Portveggir eru hvorum megin á setulofti, sléttklædd súð yfir en flatt loft yfir miðhluta. Efst á veggjum í innri hluta framkirkju og kór er hvelfdur listi og panelklædd hvelfing yfir.



[1]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C V, 161. Bréf til biskups úr Húnavatnsprófastsdæmi 1892. Byggingarreikningur Staðarbakkakirkju 1891;Skjalasafn prófasta.Húnavatnsprófastsdæmi AA/11. Staðarbakki 1890.

[2]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C V, 161. Bréf 1892. Afskrift af lýsingu nýbyggðrar kirkju á Staðarbakka.

[3]Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands 7. Staðarbakkakirkja, 200-212. Reykjavík 2006.