Fara í efni
Til baka í lista

Staðarhólskirkja, Saurbæjarhreppur

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1899

Hönnuður: Jóakim Guðmundsson forsmiður.[1]

Breytingar: Kirkjan fauk af grunni 17. febrúar 1981 og brotnaði. Var endurreist 1981–1982 á steinsteyptum grunni.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Staðarhólskirkja er timburhús, áttstrend að grunnformi, 11,85 m að lengd og 6,38 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er áttstrendur burstsettur turn með áttstrenda spíru og undir honum breiður stallur. Lítil ferstrend hljómop eru á fjórum turnhliðum. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru tveir gluggar og einn á hverri hinna fjögurra hornsneiðinga. Þeir eru oddbogalaga og í þeim átta rúður. Einn gluggi sömu gerðar, en minni, er á framstafni og hringgluggi yfir honum. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og oddbogagluggi yfir.

Í forkirkju er stigi upp á söngloft yfir henni og fremsta hluta framkirkju. Að framkirkju eru spjald- og glersettar vængjahurðir og gangur inn af þeim og bekkir hvorum megin hans. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum en efst á þeim er strikasylla. Yfir framkirkju er borðaklædd hvelfing en hálfhvolf yfir kór.


[1]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C. V, 122. Bréf 1899. Skýrsla um vísitasíur í Dalaprófastsdæmi árið 1899. Staðarhóll 1899; Biskupsskjalasafn C. V, 122. Bréf 1904. Byggingarreikningur Staðarhólskirkju árið 1899 ásamt fylgiskjölum.

[2]ÞÍ. Skjalasafn prófasta. Dalaprófastsdæmi AA/11. Staðarhóll 1982; Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands, Staðarhólskirkja, handrit 2009.