Fara í efni
Til baka í lista

Staðarkirkja, Staður, Hrútafirði, Húnaþingi vestra

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1884

Byggingarár: 1886.

Hönnuður: Sigurður Sigurðsson snikkari frá Kleifum.[1]

Breytingar: Fyrir 1900 voru tveir fremstu bekkirnir norðan megin fjarlægðir og „harmoníum“ komið þar fyrir. Árið 1908 var lokið við að klæða kirkjuna að utan með bárujárni. Forkirkja og skrúðhús voru smíðuð við kirkjuna 1983. Hönnuður: Gunnar Jónasson arkitekt.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Staðarkirkja er timburhús, 9,62 m að lengd og 5,86 m á breidd, með skrúðhús við kórbak, 2,20 m að lengd og 4,36 m á breidd, og forkirkju við vesturstafn, 1,81 m að lengd og 3,08 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með krossreist þak. Kirkjan er klædd listaþili, þök bárujárni og hún stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir gluggar, tveir á austurstafni skrúðhúss og einn á framstafni. Í þeim er T-laga póstur og tveir þriggja rúðu rammar neðan þverpósts en þverrammi að ofan. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir.

Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir og gangur inn af þeim að kór. Hvorum megin gangs eru sveigðir bekkir en veggbekkir í kór. Söngpallur er fremst í framkirkju norðan megin. Setuloft á bitum er yfir fremsta hluta framkirkju og stigi við vesturgafl sunnan megin. Fjórar stoðir eru undir setulofti en turnstoðir tvær uppi á loftinu. Á kórgafli sunnan megin altaris eru dyr að skrúðhúsi með spjaldahurð fyrir. Veggir og loft forkirkju og skrúðhúss eru klædd panelborðum. Framkirkja og kór eru klædd spjaldaþili ýmist með breiðum þiljum eða strikuðum panelborðum. Yfir setulofti er súð klædd spjaldaþili með strikuðum panelborðum en yfir miðhluta er flatt panelklætt loft undir skammbitum. Sívalur biti er neðarlega í hvelfingu á mörkum framkirkju og kórs og laufskurður upp frá endum sem fylgir boga hvelfingar þvert yfir. Kórgafl er skreyttur táknmyndum og raðbogum uppi undir hvelfingu. Efst á veggjum í innri hluta framkirkju og kór er strikasylla og panelklædd stjörnuskreytt hvelfing yfir.


[1]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C V, 161. Bréf 1892. Byggingarreikningur Staðarkirkju 1886-1889.

[2]Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands 7. Staðarkirkja í Hrútafirði, 233-247. Reykjavík 2006.