Fara í efni
Til baka í lista

Staðarkirkja, Aðalvík, Aðalvík, N.-Ísafjarðarsýslu

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1904

Hönnuður: Helgi Elíasson smiður.[1]

Breytingar: Í öndverðu var kirkjan klædd lóðréttum plægðum borðum að utan og prédikunarstóll var fyrir ofan altari. Kór reistur við kirkjuna um 1930, veggir klæddir bárujárni og prédikunarstóll færður í suðausturhorn framkirkju.[2]

Hönnuður: Ókunnur.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Staðarkirkja í Aðalvík er timburhús, 7,70 m að lengd og 5,80 m á breidd, með kór, 2,26 m að lengd og 3,80 á breidd, og forkirkju, 1,73 m að lengd og 2,00 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með píramítaþaki sem sveigist út að neðan. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar. Í þeim er krosspóstur og þrjár rúður í hvorum ramma neðan þverpósts en fjórar þríhyrndar rúður milli skásettra rima í tveimur römmum að ofan. Hvorum megin á kór er oddbogagluggi með T-laga pósti og þremur rúðum. Tveir póstgluggar með þriggja rúðu römmum eru á framstafni kirkju og einn á framhlið turns. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir.

Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir og gangur inn af þeim og sveigðir bekkir hvorum megin hans. Kór er hafinn yfir kirkjugólf um eitt þrep. Yfir fremsta hluta framkirkju er setuloft og stigi við framgafl norðan megin. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum og í framkirkju er brjóstlisti negldur á klæðninguna og framan á gluggakistur. Efst á veggjum framkirkju og kórs er strikasylla. Panelklædd hvelfing er yfir innri hluta framkirkju og önnur minni yfir kór klædd plötum. Yfir setulofti er súðarloft og skammbitaloft.


[1]Héraðsskjalasafnið Ísafirði. Byggingarreikningur Staðarkirkju 1904.

[2]Guðmundur L. Hafsteinsson. Staðarkirkja í Aðalvík. Greinargerð um ástand og viðgerð. 16 september 2006.