Stofa frá Svínavatni, Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna á Reykjum í Austur-Húnavatnssýslu
Byggingarár: 1830
Hönnuður: Ókunnur.
Athugasemd: Stofan var tekin niður 1965 og sett upp í safninu 1966.[1]
Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Stofan var hluti torfbæjar á Svínavatni. Veggir stofunnar og framstafn upp undir glugga voru hlaðnir úr torfi og á henni var torfþak, en stofan var sett upp á safninu án loftsins sem var yfir henni. Á framþili stofunnar er sex rúðu gluggi með miðpósti og uppi á gaflhlaði var fjögurra rúðu gluggi og stafninn var klæddur listaþili. Stofan er 4,1 m að lengd og 2,8 m á breidd að innanmáli. Dyr eru á vegg við innri gafl og gluggi á framgafli. Veggir stofunnar eru klæddir listuðu spjaldaþili og yfir eru gólfborð á bitum, strikuðum á hliðum. Stofan er ómáluð að innan.