Stokkseyrarkirkja, Stokkseyri
Byggingarár: 1886
Hönnuður: Jón Þórhallason forsmiður.
Saga
Kirkja er fyrst nefnd á Stokkseyri í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar frá um 1200. Elsti máldagi kirkjunnar er Michaelsmáldagi frá 1387. Kirkjan var þá helguð Maríu guðsmóður. Núverandi kirkja var smíðuð árið 1886 í stað timburkirkju sem þar stóð áður
Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Lýsing
Stokkseyrarkirkja er timburhús, 12,69 m að lengd og 7,63 m á breidd, með kór undir minna formi, 3,82 m að lengd og 3,84 m á breidd. Þak kirkju er krossreist og upp af vesturstafni er ferstrendur turn með risþak og mjór stallur undir. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru fjórir gluggar með T-laga póstum og einn á hvorri hlið kórs. Í þeim eru tveir þriggja rúðu rammar undir þverpósti en þverrammi að ofan með bogarimum. Á framstafni yfir dyrum eru þrír sex rúðu póstagluggar, miðglugginn er sjónarmun stærri en hinir tveir. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og þvergluggi yfir með bogarimum.
Forkirkja er yfir þvera kirkju skilin frá framkirkju með þverþili. Í henni sunnan megin er skrúðhús en norðan megin er geymsla, salerni og stigi til sönglofts yfir forkirkju og fremsta hluta framkirkju og setsvala inn með hliðum. Að framkirkju eru vængjahurðir af einföldustu gerð og gangur inn af þeim og stólaraðir hvorum megin hans. Kór er hafinn yfir kirkjugólf um tvö þrep. Veggir forkirkju eru klæddir krossviðarplötum en framkirkja og kór klædd gullálmsplötum. Reitaskipt hvelfing er yfir framkirkju og önnur minni yfir kór.