Stóra-Áskirkja, Hálsasveit, Borgarfirði
Byggingarár: 1897
Byggingarár: 1897–1898.
Hönnuður: Jón Magnússon smiður og bóndi í Stóra-Ási.[1]
Breytingar: Kirkjan flutt ofan af ásnum 1965 og sett á steinsteyptan sökkul.[2]
Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Stóra-Áskirkja er timburhús, 6,30 m að lengd og 5,04 m á breidd, með tvískiptan turn við vesturstafn, 1,84 m að lengd og 1,98 m á breidd. Á kirkjunni er krossreist þak. Ferstrendur stöpull nær upp að mæni kirkju og á honum er flatt þak. Undir þakbrúnum stöpuls eru randskornar vindskeiðar en handrið með krosssettum rimum ofan á brúnum. Turninn er minni um sig, áttstrendur með íbjúgt áttstrent þak. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír póstagluggar með þriggja rúðu römmum og einn á framhlið turns. Fyrir kirkjudyrum er okahurð og þvergluggi yfir með krosssettum og lóðréttum rimum.
Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir og gangur inn af þeim og bekkir til hvorrar handar en lausir bekkir í kór. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum og efst á þeim er strikasylla og skrautband sem leidd eru fyrir báða gafla. Flatsúlur eru hvorum megin altaris og bogi yfir því. Yfir kirkjunni er borðaklædd hvelfing stafna á milli.
[1]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C. V, 92. Bréf 1898. Byggingarreikningur Stóraásskirkju 1897–98, ásamt fylgiskjölum; Sigríður Björk Jónsdóttir. Kirkjur Íslands 13, Stóra-Áskirkja, 335-351. Reykjavík 2009.
[2]ÞÍ. Biskupsskjalasafn 1994 AA/ 12. Stóra-Áskirkja 1969.