Stóra-Núpskirkja, Gnúpverjahreppur, Árnessýslu
Byggingarár: 1909
Hönnuður: Rögnvaldur Ólafsson Húsameistari.
Saga
Kirkja er nefnd í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar frá um 1200. Elsti varðveitti máldagi kirkjunnar er frá 1331 og er kirkjan þá helguð Ólafi konungi helga. Núverandi kirkja er reist á grunni eldri kirkju sem fauk í miklu óveðri árið 1908.
Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Lýsing
Stóra-Núpskirkja er timburhús, 10,75 m að lengd og 7,62 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er áttstrendur turn með turnspíru. Hann stendur á áttstrendum stalli. Bogadregin hljómop með hlera eru á hverri turnhlið. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru fimm gluggar og þrír á hvorum stafni, bogadregnir að ofan. Í þeim eru fíngerðir póstar og rimar um tíu rúður. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir, bogadregnar að ofan.
Inn af dyrum er forkirkja og yfir henni hringjarapallur. Að framkirkju eru dyr með spjaldsettum vængjahurðum. Inn af þeim er gangur og bekkir hvorum megin hans. Kór er hafinn upp yfir kirkjugólf um eitt þrep. Kórþil er í baki innstu bekkja á frambrún kórpalls. Hvorum megin altaris eru afþiljaðar stúkur, stúka fyrir kolaofn að norðanverðu en skrúðhús að sunnanverðu. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum en kórgafl undir gluggum og þilveggir í kór eru reitaðir og klæddir málningarpappír. Súðarloft klætt skásettum panelborðum er yfir allri kirkjunni og undir því tvær stoðaraðir sem skipta kirkjunni í þrennt, miðskip og hliðarskip með hvorum hliðarvegg.