Fara í efni
Til baka í lista

Stóru-Akrar, bæjardyr, bæjargöng og þingstofa, Akrahreppur, Skagafirði

Friðlýst hús

Byggingarár: 1744

Byggingarár: 17431745.

Athugasemd: Hluti torfhúss sem Skúli Magnússon sýslumaður Skagfirðinga og síðar landfógeti lét reisa 17431745.

Hönnuður: Ókunnur.

Í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá 1954.[1]

Sett á fornleifaskrá 23. febrúar 1954 skv. 2. gr. laga um viðhald fornra mannvirkja og um byggðasöfn nr. 8/1947 en ekki þinglýst og friðlýsingin er því ógild sbr. 6. gr. laga um verndun fornmenja nr. 40/1907.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Stóru-Akrar er torfhús, sem skiptist í bæjardyr, bæjargöng og þingstofu, 12 m að lengd og 13,5 m á breidd að utanmáli. Veggir eru hlaðnir úr torfi en framstafnar bæjardyra og þingstofu og hálfþil á bæjardyralofti eru klædd listaþili og á húsunum eru torfþök. Dyr eru á miðju bæjardyraþili og uppi yfir þeim á gaflhlaði er gluggi með fjórum rúðum en þrír sex rúðu gluggar með miðpósti eru á þingstofu, þar af einn á gaflhlaði, og lítill gluggi er á suðurhlið bæjargangna.

Bæjardyr eru í þremur stafgólfum og byggðar úr stafverki. Stafir standa á gólfsyllum og í innsta stafgólfi norðan megin eru standþiljur greyptar í gólfsyllu og yfirsyllu og austurgafl að bæjargöngum er klæddur spjaldaþili og portveggir á bæjardyralofti eru klæddir standþiljum. Í norðausturhorni bæjardyra er afþiljaður stigi til bæjardyralofts og fyrir honum dyr með drótt yfir. Að öðru leyti eru veggir hússins óklæddir að innan.Yfir bæjardyrum er loft á bitum og yfir bæjardyralofti er sléttfelld rennisúð á langböndum. Í bæjargöngum inn af bæjardyrum eru tvennar dróttskornar sperrur og yfir göngunum er gisin rennisúð á langböndum og veggir eru óklæddir. Þingstofan er í fimm stafgólfum, veggir eru óklæddir að innan og yfir stofunni eru strikaðir þverbitar og sléttfelld rennisúð á langböndum. Húsið er ómálað að innan og enn (árið 2009) ófrágengið frá því að viðgerð fór fram á því á árunum 1988 1989.


[1]Þjóðminjasafn Íslands. Skjalasafn húsasafns. Stóru-Akrar; Hörður Ágústsson. Stafsmíði á Stóru-Ökrum. Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1975.

[2]Ágúst Ó. Georgsson. Fornleifaskrá 1990, 45.