Fara í efni
Til baka í lista

Suðurgata 7 - Árbæjarsafni

Suðurgata 7, Árbæjarsafni
Friðlýst hús

Byggingarár: 1833

Reist í áföngum 1833-1883. Flutt í safnið 1983.

Friðun

Friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

Byggingarefni

Timburhús


Árið 1833 byggði Teitur Finnbogason járnsmiður, bæjarfulltrúi og fyrsti lærði dýralæknir landsins, lítið tjargað timburhús við stíginn, sem lá út á Skildinganes og að ferjunni til Bessastaða. Húsið var grindarhús, ein hæ og hátt ris. Múrsteinar voru í grindinni. Þetta er eitt fyrsta timburhúsið sem reist var af Íslendingi í Reykjavík og fyrsta húsið við Suðurgötu. Um 1860 keypti Björn Hjaltested, sem einnig var járnsmiður, húsið en hann stækkaði það í áföngum, fyrst árið 1874 og síðan árið 1883 þegar suðurhlutinn var hækkaður til samræmis við norðurhlutann og þá var einnig byggður inngönguskúr við suðurgaflinn. Var þá komið það útlit á húsið sem það hélt æ síðan. Að Birni látnum var húsið í eigu afkomenda hans og bjuggu þeir í húsinu allt til ársins 1983 er það var flutt í Árbæjarsafn. Frá um 1890 bjuggu ætíð tvær fjölskyldur í húsinu, önnur á tveimur hæðum í norðurenda þess og hin í suðurendanum. Síðustu árin var rekið þar gallerí.

Árið 1983 var húsið flutt í Árbæjarsafn. Við endurbyggingu hússins, sem lauk árið 1992, var ákveðið að miða við þá mynd og lögun sem húsið fékk árið 1883. Ráðgefandi arkitekt við endurbygginguna var Hjörleifur Stefánsson.

Í húsinu í Árbæjarsafni er nú til sýnis heimili efnafólks fá því um aldamótin 1900 og gullsmíðaverkstæði.

 

Heimildir:

Árbæjarsafn 35 ára. Suðurgata 7 dæmigert fyrir íslenska klassík (1992, 23. september). Morgunblaðið, bls. 17.

Hjörleifur Stefánsson (1992). Suðurgata 7 - flutningur í Árbæjarsafn og endurreisn hússins. Söguspegill. Afmælisrit Árbæjarsafns, bls. 200-230. Reykjavík: Árbæjarsafn og Hið íslenzka bókmenntafélag.