Sundstræti 25 A (Messíönuhús), Ísafirði
Byggingarár: 1845
Hönnuður: Ókunnur.
Friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Messíönuhús er einlyft timburhús með risþaki, 7,70 m að lengd og 5,06 m á breidd. Við norðanverða framhlið er inngönguskúr, 1,74 m að lengd og 2,0 m á breidd, og skúr við norðurgafl, 2,6 m á lengd og 4,08 m á breidd, og skúrþak á þeim báðum. Kjallari er undir norður- og austurhluta hússins og það stendur á steinsteyptum sökkli. Hliðarnar tvær eru klæddar strikaðri vatnsklæðningu en aðrir veggir og þök eru klædd bárujárni. Á framhlið er einn T-póstagluggi og einn krosspóstagluggi, þrír póstagluggar eru á suðurstafni, þrír T-póstagluggar á bakhlið og einn á gaflhyrnu norðurstafns. Á skúr austanverðum er T-póstagluggi og tveggja pósta gluggi vestan megin. Útidyr eru á austurhlið inngönguskúrs og lítill gluggi norðan megin. Þakgluggi er austan megin á þaki.
Gangur er inn af inngönguskúr, stofa í suðurhluta hússins, eldhús í norðurhluta og herbergi í skúrviðbyggingu. Í risi er gangur upp af stiga og herbergi í hvorum enda en geymsla og baðherbergi í kjallara. Veggir eru plötuklæddir. Í stofu er reitaloft milli bita og í suðurherbergi er súð klædd þiljum sem felldar eru milli syllna og stafa en önnur loft eru plötuklædd.
Húsinu fylgir einlyftur timburhjallur með risþaki á horni Sundstrætis og Þvergötu. Norðurhluti hans er klæddur rimum en austurhlið sunnan megin er klædd strikaðri vatnsklæðningu, vesturhlið sunnan megin er klædd sléttjárni en suðurstafn og þak eru klædd bárujárni.
[1]Elísabet Gunnarsdóttir og Jóna Símonía Bjarnadóttir. Húsakönnun á Ísafirði 1992–1993, 149. Handrit 1993; Jóna Símonía Bjarnadóttir. Viðtal 2000.