Fara í efni
Til baka í lista

Svalbarðskirkja, Þistilfjörður, N-Þingeyjarsýslu

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1848

Hönnuður: Gísli Þorsteinsson forsmiður frá Stokkahlöðum í Eyjafirði.[1]

Breytingar: Í mörgu hefur frágangi byggingarhluta verið breytt, einkum á árunum 1980–1990. Má þar helst nefna glugga, kirkjuhurð, klæðningu veggja, litaval innan dyra og að skarsúð var negld neðan á sperrur til að koma fyrir einangrun í þakinu en falskar sperrur settar undir nýju skarsúðina.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Svalbarðskirkja er timburhús, 10,70 m að lengd og 5,84 m á breidd. Þakið er krossreist og klætt bárujárni. Kirkjan er klædd slagþili og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju og á hvorum stafni eru þrír sexrúðu gluggar. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og bjór yfir.

Inn af kirkjudyrum er gangur og þverbekkir hvorum megin hans en veggbekkir í kór. Lágt kórþil klætt póstaþili er í baki innstu bekkja. Í kórdyrum eru áttstrendir kórstafir með renndum súlum efst og boga yfir. Prédikunarstóll er framan kórþils sunnan megin og stoðir með boga yfir eru við inngöngu í hann. Veggir eru klæddir póstaþili en brjóstlisti er utan á klæðningunni undir gluggum umhverfis kirkjuna. Þverbitar eru milli veggja og yfir kirkjunni skarsúðarloft opið upp undir mæni.



[1] Guðni Halldórsson. Bréf til höfundar 1999.

[2] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Svalbarðskirkja við Þistilfjörð.