Fara í efni
Til baka í lista

Svínavatnskirkja, Svínavatnshreppur, A-Húnavatnssýslu

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1879

Hönnuður: Friðrik Pétursson skipasmiður, forsmiður og málari.[1]

Athugasemd: Friðrik lést í árslok 1897 þegar smíði kirkjunnar var hálfnuð og var Árni Hallgrímsson forsmiður frá Garðsá ráðinn í hans stað og má vel vera að hann hafi einnig mótað kirkjuna.

Breytingar: Í öndverðu stóð kirkjan á steinhlöðnum sökkli, veggir klæddir listaþili, á henni voru póstagluggar með tveimur þriggja rúðu römmum, þak var klætt listasúð, þak turnsstalls var klætt sinkplötum en turnþakið pappa. Kirkjuþak var fljótlega klætt pappa en bárujárni fyrir 1925 og á árunum 19681970 var sökkull steinsteyptur og gluggum breytt.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Svínavatnskirkja er timburhús, 8,27 m að lengd og 5,73 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er lágur turn og á honum íbjúgt píramítaþak. Hann stendur á háum og breiðum stalli með ferstrent bryggjumyndað þak. Kirkjan er klædd listaþili, þak bárujárni en turnþök sléttu járni og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru tveir gluggar með sex rúðum, einn minni á framstafni og annar á framhlið turns. Hlerar eru á hliðum turns. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar spjaldsettar vængjahurðir. Yfir þeim er strikaður bogadreginn bjór.

Inn af kirkjudyrum er gangur og aftursættir þverbekkir hvorum megin hans en veggbekkir umhverfis í kór að altari. Setuloft á bitum er yfir fremri hluta framkirkju og afþiljaður stigi í suðvesturhorni. Tvær stoðir eru undir frambrún þess,  ferstrendar að neðan en sívalar að ofan. Á loftinu eru þverbekkir og tvær áttstrendar turnstoðir. Veggir eru klæddir spjaldaþili og efst á þeim er hvilftuð og ávöl sylla. Yfir setulofti er súðarloft klætt spjaldþili neðan á sperrur en borðaklædd hvelfing undir turnstalli. Borðaklædd hvelfing er yfir innsta hluta framkirkju og kór.



[1]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C, V, 161. Bréf 1882. Reikningur yfir endurbyggingu Svínavatnskirkju árið 1880-1881, ásamt fylgiskjölum.

[2]ÞÍ. Biskupsskjalasafn C, V, 161. Bréf 1882. Úrdráttur úr vísitasíu Svínavatnskirkju 5. nóvember 1882; Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands 8. Svínavatnskirkja, 201-209. Reykjavík 2006.