Fara í efni
Til baka í lista

Þingeyrarkirkja, Þingeyri

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1909

Steinsteypuhús reist 1910–1911.

Hönnuður: Rögnvaldur Ólafsson arkitekt.[1]

Breytingar: Kirkjan var skrautmáluð innan árið 1961 af Jóni og Grétu Björnsson.

Árið 1988 var kirkjan einangruð að utan og húðuð múr.

Árið 2001 var einangrun tekin af veggjum og útlit hennar fært til fyrra horfs.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Þingeyrarkirkja er steinsteypuhús, 16,56 m að lengd og 10,78 m á breidd, með forkirkju 2,05 m að lengd og 3,71 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni, sem snýr til norðurs, er ferstrendur turn með háa tvískipta áttstrenda spíru sem gengur út undan sér að neðan. Turninn stendur á lágum stalli jafnbreiðum. Hljómop er á framhlið turns en fölsk á hliðum. Kirkjan er múrhúðuð, þök og turnhliðar bárujárnsklædd en turnþak klætt sléttu járni. Stoðveggir eru við hliðar og út frá göflum kirkju og forkirkju og ufsastallar á kampagöflum. Á hvorri hlið kirkju eru sjö smárúðóttir oddbogagluggar, þrír minni á hvorum stafni auk lítils glugga á hvorri hlið forkirkju. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir, oddbogalagaðar að ofan.

Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir. I fremsta stafgólfi hvorum megin gangs er innri forkirkja þiljuð af framkirkju. Vestanmegin í henni er stigi til sönglofts með þverum framgafli. Gangur er inn kirkju og bekkir hvorum megin hans. Kór er hafinn yfir kirkjugólf um tvö þrep. Innsta bekkjaröð er á frambrún kórgólfs og í þeim lágt kórþil. Hvorum megin altaris eru afþiljaðir klefar, geymsla annars vegar en skrúðhús hins vegar og gengið úr því í prédikunarstól. Tvær stoðaraðir skipta kirkjunni í þrjú skip, miðskip og hliðarskip (útbrot) með hliðarveggjum. Þvert milli stoða eru skammbitar en þverbitar út í vegg. Yfir þeim eru þil með oddbogalöguðum opum en milli stoðanna yfir kirkjubekkjum eru oddbogalagaðar dróttir. Yfir kirkjunni er súð klædd skásettum panelborðum en veggir eru sléttaðir.


[1]ÞÍ. Teikningasafn Embættis Húsameistara ríkisins. Rögnvaldur Ólafsson. Bréf til Landskjalasafns dagsett 18. nóvember 1912. Þar telur Rögnvaldur upp kirkjur þær sem hann hafði teiknað fram að þeim tíma.