Fara í efni
Til baka í lista

Þingvallakirkja, Þingvallahreppur

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1859

Hönnuður: Eyjólfur Þorvarðsson forsmiður frá Bakka.[1]

Breytingar: Turni breytt 1907. Hönnuður: Rögnvaldur Ólafsson arkitekt.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Þingvallakirkja er timburhús, 7,68 m að lengd og 5,11 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur burstsettur turn með ferstrenda spíru. Undir honum er bjúgstallur. Bogadregin hljómop með hlera og tveimur kvartbogarúðum eru á þremur turnhliðum og krappar undir þakskeggi. Kirkjan er klædd listaþili en þak og turn eru eirklædd. Hún stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar og einn heldur minni á framstafni yfir kirkjudyrum. Þeir eru bogadregnir að ofan en yfir þeim eru burstlaga faldar og vatnsbretti. Í þeim er miðpóstur og mjóir þverpóstar um sex rúður. Fyrir kirkjudyrum er okahurð klædd tígulsettum listum og hálfhringsgluggi yfir með fjórum rúðum en einfaldur bjór efst. 

Inn af kirkjudyrum er gangur og bekkir hvorum megin hans. Bök innstu bekkja og kórstafir, með hnetti efst, mynda kórþil á mörkum framkirkju og kórs. Setuloft á bitum er yfir framkirkju og stigi til loftsins við framgafl norðan megin. Veggir eru klæddir spjaldaþili. Reitaskipt hvelfing er yfir kór í innri hluta kirkjunnar. Á setulofti eru lausir stólar og tvær stoðir sem ganga upp í turninn gegnum súðina. Súð og veggir á setulofti eru klædd ómáluðum panelborðum.



[1]ÞÍ. Bps. C. V, 70. Bréf 1860. Byggingarreikningur Þingvallakirkju 1859 ásamt fylgiskjölum.

[2]ÞÍ. Árnesprófastsdæmi AA/11. Þingvellir 1907;Garðar Halldórsson. Kirkjur Íslands 4. Þingvallakirkja, 223-241. Reykjavík 2003.