Fara í efni
Til baka í lista

Þverárbærinn, Laxárdalur, S-Þingeyjarsýslu

Friðlýst hús

Byggingarár: 1847

Byggingarár: 1849–1870.

Hönnuður: Jón Jóakimsson bóndi og hreppstjóri á Þverá.[1]

Í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá 1968.[2]

Friðaður 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Þverárbær er torfhús sem samanstendur af níu húsum, um 23 m að lengd og 29 m á breidd. Þverákirkja er suðvestur af bænum og sunnan við bæinn eru tóftir skemmu. Fjögur hús snúa í austur fram á bæjarhlað og að kálgarði í brekku fyrir framan bæinn. Syðst er suðurstofa, þvínæst bæjardyr, norðurstofa og smiðja nyrst. Innangengt er í öll bæjarhús nema smiðju. Úr bæjardyrum er gengið um gang að suðurstofu og suðurbakhúsi og í því eru útidyr á suðurhlið og stigi til suðurlofts. Norðan megin við bæjargöng er gangur að norðurstofu og norðurbakhúsi. Geymsla er inn af norðurstofu og stigi á gangi upp á norðurloft. Innst í bæjardyrum að sunnanverðu er stigi upp á bæjardyraloft og bæjargöng til vesturs. Sunnan megin við bæjargöng er búr sem skipt er með þverþili í fremra og innra búr og vestur úr fremra búri er eldhús í stórahúsi. Gegnt búri að norðanverðu eru hlóðaeldhús og eldiviðargeymsla. Þessi hús eru undir sama þaki. Fyrir enda bæjarganga er komið í miðbaðstofu og inn af henni er suðurhús annars vegar og norðurhús hins vegar. Vestur úr hlóðaeldhúsi eru mjó göng, ranghali, sem beygja til norðurs að dyrum. Fjós er vestan við eldiviðargeymslu og norðan og austan við ranghala. Vestan við ranghala eru brunnhús og lækjarhús.

Veggir eru grjóthlaðnir og moldarfylltir og ofan á þeim er torflag hlaðið úr streng og þekja er tyrfð. Framstafnar eru klæddir slagþili og vindskeiðum með afturslætti og neðst á veggjum er vatnsbretti. Gaflhlöð á suður- og norðurlofti eru einnig klædd slagþili en önnur gaflhlöð eru hlaðin úr torfi. Tveir 12 rúðu gluggar með miðpósti eru á suðurstofu og fjögra rúðu gluggi uppi á stafninum og annar á bakstafni. Útidyr eru á miðju bæjardyraþili og þvergluggi yfir þeim og fjögra rúðu gluggi efst á stafninum. Á norðurstofu eru þrír sex rúðu gluggar með miðpósti, 12 rúðu gluggi með miðpósti er á bakstafni og lítill gluggi á norðurbakhúsi. Dyr eru á smiðjustafni og einn fjögra rúðu gluggi. Kvistgluggar eru á búri, hlóðaeldhúsi, stórahúsi, ranghala, fjósi og lækjarhúsi. Sjö kvistgluggar eru á baðstofu, sex þeirra með fjögra rúðu glugga og einn með sex rúðu glugga með miðpósti.

Bæjardyr eru portbyggðar, framþilið og veggir eru óklæddir að innan nema lítill hluti þeirra sem klæddur er standþiljum og yfir því er loft á bitum. Portveggir eru klæddir láréttum borðum milli lóðréttra stafa, framgafl er klæddur spjaldaþili en bakgafl er torfhlaðinn. Yfir bæjardyralofti eru langbönd á sperrum og reisifjöl. Suðurstofa er klædd standþiljum með ánegldum brjóstlista og í henni er loft á bitum. Suðurbakhús er óklætt að innan. Framgafl á suðurlofti er klæddur breiðum þiljum, bakgafl er óklæddur og portveggir eru klæddir láréttum borðum milli lóðréttra stafa. Í súð á suðurlofti eru langbönd á sperrum og hrís yfir. Norðurstofa er klædd brjóstþili með þiljum í reitum að neðan en standþiljum að ofan. Í stofunni er loft á bitum. Geymsla er klædd standþiljum og milliþil að stofu er úr spjaldaþili. Norðurbakhús er klætt standþiljum. Lofti yfir norðurstofu er skipt með þverþili í framloft upp af stiga og norðurloft að austanverðu. Gaflar og portveggir eru klæddir standþili og yfir framlofti er súð úr sperrum með langböndum og hrís. Á norðurlofti er súð úr sléttfelldum borðum á sperrum og klætt neðan á hanabjálka undir mæni. Fremri hluti bæjarganga er grjóthlaðinn og með streng efst. Loft er flatt og gert úr þverbitum og langböndum og hrís. Í innri hluta bæjarganga eru þverþil úr standþiljum á milli búrs og hlóðaeldhúss. Veggir í búri og hlóðaeldhúsi eru grjóthlaðnir neðst og hlaðnir úr streng að ofan og óklæddir. Í báðum húsum eru stoðir, veggsyllur og þverbitar. Í búri eru langbönd á sperrum og gisin reist fjöl undir hrísi en í hlóðaeldhúsi eru kálfsperrur með langböndum, hrís og gisnum fjölum neðst í súðinni. Stórahús er klætt standþiljum en suðurveggur klæddur láréttum borðum og súð frágengin eins og í búri. Miðbaðstofa, suðurhús og norðurhús eru klædd standþiljum en kvistir klæddir strikuðum panelborðum og yfir húsinu er skarsúð á sperrum. Veggir ranghala eru steinhlaðnir og tyrfðir að ofan með streng og yfir er flatt loft úr röftum og langböndum. Fjósveggir eru gerðir með svipuðum hætti. Þekjan er borin uppi af þremur ásum sem studdir eru stoðum. Milli ása eru raftar út á vegg og langbönd og hrís yfir. 



[1]Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940, 67. Reykjavík 1998.

[2]Þór Magnússon. Skýrsla um Þjóðminjasafnið 1968, 154. Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1969. Reykjavík 1970.