Fara í efni
Til baka í lista

Þverárkirkja, Laxárdalur, S-Þingeyjarsýslu

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1878

Hönnuður: Baldvin Sigurðsson steinsmiður.

Tréverk vann Þorgrímur Jónsson forsmiður frá Gilsá.[1]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Þverárkirkja er steinhlaðið hús, 8,77 m að lengd og 6,17 m á breidd. Bárujárnsklætt risþak er á kirkjunni og á því hálfvalmi yfir kórbaki. Upp af vesturstafni er ferstrendur timburturn klæddur bárujárni og sléttu járni og á honum íbjúgt píramítaþak klætt sléttu járni. Veggir kirkju eru sléttaðir með þunnum múr svo hleðslan skín í gegn og múrbrún er undir þakskeggi. Á hvorri hlið kirkju eru tveir bogadregnir smárúðóttir steypujárnsgluggar en hringgluggi ofarlega á kórbaki og framstafni. Þvergluggi er á framhlið turns og hlerar fyrir hljómopi á hvorri hlið. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og yfir þeim bogagluggi. Hvorum megin dyra er framstæð flatsúla, þverbiti á milli þeirra en bogadregin brún yfir glugganum.

Inn af kirkjudyrum er gangur og aftursættir þverbekkir hvorum megin hans en langbekkir og veggbekkir umhverfis i kór. Prédikunarstóll milli innstu bekkjaraða sunnan megin. Setuloft er yfir fremsta hluta framkirkju og stigi í norðvesturhorni. Veggir eru sléttaðir og efst á þeim er strikasylla. Yfir setulofti er risloft klætt reitum en reitaskipt og stjörnuprýdd lágbogahvelfing yfir innri hluta framkirkju og kór.



[1]Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940, 298. Reykjavík 1998.