Þykkvabæjarklausturskirkja, Skaftárhreppur, V-Skaftafellssýslu
Byggingarár: 1864
Hönnuður: Jóhannes Jónsson forsmiður.
Breytingar: Upphaflega var kirkjan klædd listaþili á veggjum og listasúð á þaki og bjór var yfir kirkjudyrum, glugga á framstafni og hljómopi á framhlið turns. Árið 1896 voru austurstafn, kirkjuþak og turn klædd bárujárni og aðrar hliðar kirkjunnar 1904.[2]
Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Þykkvabæjarklausturkirkja er timburhús, 8,91 m að lengd og 5,17 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er hár ferstrendur turn með hlera fyrir hljómopi á framhlið og risþak. Undir honum er stallur. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinhlöðnum og steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar með miðpósti og þriggja rúðu römmum og einn heldur minni á framstafni yfir dyrum. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir.
Inn af dyrum er gangur að kór sem skilinn er frá framkirkju með kórþili, klæddu spjaldaþili að neðan með láréttum borðum og lágum rimlum að ofan. Í kórdyrum eru ferstrendir kórstafir og oddbogi yfir. Prédikunarstóll er framan við kórþil sunnan megin kórdyra. Bekkir eru hvorum megin gangs, þeir innstu tvísættir, og veggbekkir umhverfis í kór að altari. Setuloft á bitum er yfir fremsta hluta framkirkju og stigi við framgafl norðan megin. Skástífa er ofarlega á vegg hvorum megin uppi undir frambrún sönglofts. Kirkjan er klædd innan reitaþiljum og á kórgafl er felldur oddbogi. Yfir innri hluta framkirkju og kór er oddbogalöguð reitaskipt hvelfing með breiðum langböndum en yfir setulofti er skarsúð á sperrum og borðaklætt loft á skammbitum.
[1]ÞÍ. Bps. C, V. 53. Bréf 1865. Skýrsla um ástand og fjárhag kirknanna í Vestur-Skaftafellsprófastsdæmi fyrir árið 1865; Reikningar Þykkvabæjarklausturskirkju 1831-1871. Afskrift af vísitasíu Þykkvabæjarklausturskirkju 1864.
[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Þykkvabæjarklausturskirkja.