Fara í efni
Til baka í lista

Tjöruhúsið Neðstakaupstað, Ísafirði

Friðlýst hús

Byggingarár: 1734

Byggingarár: 1782.[1]

Hönnuður: Ókunnur.

Friðað í A-flokki af bæjarstjórn 16. janúar 1975 samkvæmt 2. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969.[2]

Friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Tjöruhúsið er stokkbyggt einlyft timburhús með risþaki, 15,25 m að lengd og 6,45 m á breidd. Húsið stendur á steinhlöðnum sökkli. Veggstokkar eru óklæddir og gaflhlöð smíðuð úr listaþili og þakið klætt rennisúð. Stokkaendar ganga út yfir horn og eru klæddir lóðréttum borðum. Á framhlið hússins eru tvö einnar rúðu gluggaop með vængjahlerum og eitt á norðurhlið. Sjö fjögurra rúðu gluggarammar eru á húsinu; einn á framhlið og tveir á bakhlið og á hvoru gaflhlaði. Útidyr með vængjahurðum eru á framhlið og aðrar á vesturgafli og yfir þeim vörudyr og gálgi á gaflhlaðinu og fánastöng efst.

Vesturhluti hússins er einn salur og í honum endilöngum er stoðaröð undir loftbitum. Innarlega í austurhluta hússins er stigi upp á loft og þil þvert yfir húsið. Kames er við austurgafl sunnan megin en eldhús norðan megin. Loftinu er skipt með þverþili við stigaop. Herbergi með súðarskápum er í austurhluta en salur í vesturhluta. Veggstokkar eru óklæddir að innan en þverþil niðri og uppi smíðuð úr standþiljum. Yfir hæðinni er loft á bitum. Gaflþil uppi eru óklædd og yfir húsinu er skarsúðarloft opið upp í rjáfur. Húsið er ómálað að innan.


[1]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Tjöruhúsið í Neðstakaupstað; Af norskum rótum. Elísabet Gunnarsdóttir og Jóna Símonía Bjarnadóttir. Ísafjörður og Vestfirðir – miðstöð hvalveiða, 229. Mál og menning. Reykjavík 2003.

[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Tjöruhúss í Neðstakaupstað.