Fara í efni
Til baka í lista

Torfastaðakirkja, Biskupstungnahreppur, Árnessýslu

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1893

Hönnuður: Árni Þorsteinsson forsmiður, bóndi og fræðimaður frá Brennistöðum í Flókadal.

Saga

Torfastaðakirkja er nefnd í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar frá um 1200 en elsti prestur kirkjunnar sem vitað er um var Hallur Teitsson (d. 1150). Elsti máldagi kirkjunnar er frá 1331 og er hún þá Maríukirkja. Núverandi kirkja er reist á grunni eldri timburkirkju.

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

Lýsing

Torfastaðakirkja er timburhús, 9,57 m að lengd og 6,38 m á breidd, með kór undir minna formi, 2,0 m að lengd og 5,6 m á breidd. Á krossreistu þaki upp af framstafni er turn með ferstrent þak, íbjúgt um miðju. Undir honum er bjúgstallur. Hljómop með hlera og bogaglugga yfir er á framhlið turns en faldar um fölsk hljómop á turnhliðum hvorum megin. Laufskornar vindskeiðar eru undir þakbrúnum. Kirkjan er klædd báruðum stálplötum og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar. Í þeim er T-laga póstur og tveir rammar með þremur rúðum hvor og þverrammi að ofan með einni rúðu. Á framstafni yfir kirkjudyrum er póstgluggi með þriggja rúðu römmum en þrír samlægir gluggar á hvorri hlið kórs, hver með fjórum rúðum. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir.

Inn af kirkjudyrum er gangur og bekkir hvorum megin hans. Kórdyrabogi er á mörkum framkirkju og kórs og undir honum tvær stoðir. Kórgólf er hafið upp yfir kirkjugólf um eitt þrep. Hvorum megin í kór eru afþiljaðir klefar, geymsla að norðanverðu en skrúðhús að sunnanverðu. Setuloft á bitum er með þverum framgafli yfir fremsta hluta framkirkju og stigi við framgafl norðan megin. Undir því eru fjórar stoðir og bogadreginn biti undir frambrún með einföldu bókrulluskrauti á endum. Tvær turnstoðir eru á loftinu og lausir bekkir. Veggir eru klæddir ómáluðum strikuðum panelborðum, kórveggir plötuklæddir en kórgafl og þilveggir klæddir slagþili. Yfir framkirkju er reitaskipt hvelfing stafna á milli en reitaskipt plötuklætt risþak yfir kór.

Heimild
Kirkjur Íslands, 3. bindi, bls. 141 - 166