Fara í efni
Til baka í lista

Tungufellskirkja, Hrunamannahreppur, Árnessýslu

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1856

Hönnuður: Sigfús Guðmundsson forsmiður frá Skúmsstöðum á Eyrarbakka.

Saga

Kirkju í Tungufelli er fyrst getið í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar frá um 1200 og var hún helguð Andrési postula. Núverandi kirkja var reist á grunni torfkirkju sem var byggð 1831. 

Í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá 1987. Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

Lýsing

Tungufellskirkja er timburhús, 6,73 m að lengd og 3,46 m á breidd. Þak er krossreist og klætt bárujárni en veggir listaþili og kirkjan stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír póstagluggar með þriggja rúðu römmum en gluggi með fjögurra rúðu ramma á framstafni. Fyrir kirkjudyrum er okahurð.

Inn af kirkjudyrum er gangur og bekkir hvorum megin hans. Kórþil er í baki innstu bekkja og í kórdyrum eru ferstrendir kórstafir með hnetti efst. Veggbekkir eru umhverfis í kór að altari. Veggir eru klæddir reitaþiljum. Yfir framkirkju í fremri hluta kirkjunnar er afþiljað loft á bitum og stigi í norðvesturhorni en reitaskipt hvelfing yfir kór í innri hlutanum.

Heimild

Kirkjur Íslands, 1. bindi, bls. 105 - 159