Fara í efni
Til baka í lista

Unaðsdalskirkja, Snæfjallaströnd

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1897

Byggingarár: 1899.

Hönnuður: Jakob Guðmundsson forsmiður í Æðey.[1]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Unaðsdalskirkja er timburhús, 8,91 m að lengd og 6,45 m á breidd. Þakið er krossreist og upp af vesturstafni er ferstrendur turn með risþaki. Kirkjan er klædd bárustáli og stendur á hlöðnum og steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír bogadregnir gluggar og einn sjónarmun minni á framstafni yfir kirkjudyrum. Í þeim er krosspóstur og sex rúður í römmum. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og bogagluggi yfir.

Inn af kirkjudyrum er gangur og bekkir hvorum megin hans. Bök tveggja innstu bekkjaraða eru klædd. Setuloft er með þverum framgafli og setsvalir inn með hliðum en stigi við gaflinn norðan megin gangs. Þrjár stoðir eru undir frambrún setsvala hvorum megin. Strikaður listi með tannstöfum er á frambrún setsvala. Bök  innstu bekkja á setsvölum eru klædd. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum. Strikasylla með tannstöfum undir er efst á veggjum í kór og innsta hluta framkirkju og hvelfing yfir klædd strikuðum panelborðum. Yfir setsvölum í fremri hluta framkirkju er súð og flatt loft klætt strikuðum panelborðum neðan á sperrur og skammbita.


[1]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Unaðsdalskirkja.