Fara í efni
Til baka í lista

Undirfellskirkja, Áshreppi, Austur-Húnavatnssýslu

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1915

Hönnuðir: Rögnvaldur Ólafsson arkitekt.

Breytingar: Turnspíra var í upphafi pappaklædd en var klædd sléttu járni skömmu eftir 1925. Skorsteinn norðan megin altaris, útfærður sem veggsúla, sem fyrrum gekk upp fyrir þak, hefur verið brotinn niður. 

Árin 19841985 voru smíðaðar nýjar hurðir í kirkjuna og nýir bekkir með breyttu lagi.

Hönnuður: Þorsteinn Gunnarsson arkitekt.[1]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Undirfellskirkja er steinsteypuhús, 8,83 m að lengd og 6,96 m á breidd, með turn í norðvesturhorni, 2,49 m að lengd og 2,52 m á breidd. Þakið er krossreist og klætt bárujárni. Kirkjan er múrhúðuð og sökkulbrún er neðst á veggjum. Á suðurhlið kirkju eru þrír bogadregnir smárúðóttir steypujárnsgluggar, tveir á norðurhlið og hringgluggi á framstafni. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar spjaldsettar vængjahurðir og um þær múraður bogafaldur. Turninn nær 0,34 m fram fyrir vesturgafl og norðurhlið kirkju. Hann stendur á háum sökkli og ofarlega dragast turnveggir inn í tvígang og eru þar um turninn tvö múrbönd. Bogadregnar dyr eru á framhlið turns og um þær að jafnaði gengið til kirkju. Yfir þeim er hár og mjór bogadreginn gluggi og annar á norðurhlið en hálfhringgluggi undir honum á sökkulbrún. Ofarlega á hverri turnhlið er lítill bogadreginn gluggi en yfir hverjum þeirra eru þrír litlir bogadregnir gluggar uppi undir háu píramítaþaki.

Inn af kirkjudyrum er gangur og þverbekkir hvorum megin hans en veggbekkir í kór. Fremst í framkirkju norðan megin eru dyr að turninum og í honum sveigður stigi upp á söngloft yfir fremsta hluta kirkju, milli turns og suðurhliðar. Undir frambrún þess er stoð og sín hálfsúlan við hvorn vegg. Veggir eru múrhúðaðir. Efst á þeim er band með kröppum uppi undir strikasyllu. Bandið er leitt fyrir kórgafl að vænum veggsúlum hvorum megin altaris en milli þeirra er reitaskipt bogahvelfing yfir altari. Yfir kórgaflsbandi er reitasett ufs og þil yfir henni og altarisboga. Reitaskipt  stjörnusett  hvelfing er yfir framkirkju og kór stafna á milli. 



[1]Þorsteinn Gunnarsson. Kirkjur Íslands 8. Undirfellskirkja, 228-248. Reykjavík 2006.