Útskálakirkja, Garður
Byggingarár: 1861
Byggingarár: 1861-1862.
Hönnuður: Einar Jónsson forsmiður frá Brúarhrauni.[1]
Breytingar: Kirkjan var í öndverðu öll klædd listaþili og listasúð en klædd bárujárni í áföngum 1889-1917 en norðurhlið kirkju ekki fyrr en um 1961. Kirkjan var lengd til austurs 1895 um 4½ alin og smíðuð við hana forkirkja.
Hönnuður: Jóhannes Böðvarsson forsmiður á Útskálum.
Forkirkja var stækkuð árið 1975.
Hönnuður: Ragnar Emilsson húsateiknari hjá embætti Húsameistara ríkisins.[2]
Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Útskálakirkja er timburhús, 15,55 m að lengd og 7,25 m á breidd, með forkirkju, 3,17 m að lengd og 6,50 m á breidd. Þak kirkju er krossreist og hálfvalmi yfir kórbaki en brotaþak á forkirkju. Upp af vesturstafni er ferstrendur turn með íbjúgt píramítaþak. Hann stendur á lágum stalli og á framhlið turns er hljómop með hlera. Randskornar vindskeiðar eru undir þakskeggi turns og þakbrún forkirkju. Kirkjan er bárujárnsklædd og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru fimm gluggar með sex rúðum og lítill gluggi á vesturstafni yfir forkirkju. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og bogagluggi yfir.
Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir, gangur inn af þeim og þverbekkir hvorum megin hans en langbekkir í kór. Í kórdyrum eru ferstrendir kórstafir með hnöttum efst. Söngloft á bitum og fjórum stoðum er yfir fremsta hluta framkirkju og stigi til loftsins við framgafl norðan megin. Veggir eru klæddir breiðum þiljum ofan við miðsyllu en spjaldaþili að neðan. Yfir gluggum eru oddbogar og uppi undir hvelfingu og framan á frambrún setulofts er málaður skrautbekkur en súlur á kórgafl. Reituð stjörnusett hvelfing er yfir innri hluta framkirkju og kór en panelklætt súðarloft og þiljuklætt skammbitaloft yfir sönglofti.
[1]ÞÍ. Bps. C. V, 81. Bréf 1863. Reikningur í yfirliti yfir byggingarkostnað Útskálakirkju 1862-1863.
[2]Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands 11. Útskálakirkja, 338-352. Reykjavík 2008.