Fara í efni
Til baka í lista

Víðimýrarkirkja, Skagafjörður

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1834

Hönnuður: Jón Samsonarson forsmiður, alþingismaður og bóndi í Keldudal.[1]

Í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá 1938.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Víðimýrarkirkja er torf- og timburhús, 10,16 m að lengd og 4,17 m á breidd, með torfveggjum við langhliðar, um 10,80 m að lengd og 2,20 m á breidd, og torfþekju á krossreistu þaki. Kirkjustafnar eru klæddir tjargaðri reisifjöl. Tvöfaldar strikaðar vindskeiðar eru á þakbrúnum, krossfelldar og útskornar til enda og trékross upp af framstafni. Á kórbaki eru tveir póstagluggar hvorum megin altaris og í þeim tveir þriggja rúðu rammar en fjögurra rúðu gluggi uppi á stafninum. Fjögurra rúðu gluggi er hvorum megin kirkjudyra og kvistur í suðurþekju með fjögurra rúðu glugga. Fyrir kirkjudyrum er okahurð. Gegnt kirkju er klukknaport og á því lágreist listasúðað þak borið uppi af fjórum hornstoðum.

Inn af kirkjudyrum eru gangur og þverbekkir hvorum megin hans en veggbekkir umhverfis í kór að altari. Kórþil er á mörkum framkirkju og kórs, klætt þiljum upp undir miðsyllu en gegnskornum máluðum grindum að ofan upp undir þverslá. Ferstrendir kórstafir eru í kórdyrum og randskorið og málað dróttþil milli þeirra undir þverbita. Framan kórþils sunnan megin er prédikunarstóll undir kvistglugga og hefðarsæti í tveimur innstu bekkjaröðum hvorum megin. Þau eru afmörkuð frá fremri bekkjum með háu þilklæddu baki og gegnskornum grindum upp undir þverbita. Innstu bekkirnir eru tvísættir. Veggir eru klæddir spjaldaþili. Þverbitar eru í hverju stafgólfi framkirkju og kórs. Loft er opið upp í rjáfur og klætt rennisúð á langbönd ofan á sperrum. Kirkjan er ómáluð að innan.



[1]ÞÍ. Kirknasafn. Glaumbær/Víðimýri AA/2. 1837; Kristján Eldjárn. Hundrað ár í Þjóðminjasafni, 71; Hörður Ágústsson. Kirkjur á Víðimýri. Skagfirðingabók XIII. Reykjavík 1984; Kirkjur Íslands 5, Víðimýrarkirkja, 264-274 og 276-278. Reykjavík 2005; Guðrún Harðardóttir. Kirkjur Íslands 5, Víðimýrarkirkja, 274-276. Reykjavík 2005.

[2]Þjóðminjasafn Íslands. Skjalasafn húsasafns. Víðimýrarkirkja. Afsal Gunnars Valdimarssonar dagsett 19. mars 1938.