Fara í efni
Til baka í lista

Villa Nova, Sauðárkróki, Aðalgata 23

Friðlýst hús

Byggingarár: 1903

Athugasemd: Flutt tilsniðið til landsins frá Noregi.[1]

Hönnuður: Ókunnur.

Breytingar: Vetrarstofa við suðurgafl rifin 1995 og byggð að nýju í upprunalegu útliti árið 2002.[2]

Friðað af menntamálaráðherra 15. desember 1999 samkvæmt 1. mgr. 35. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989, friðun tekur til ytra borðs.[3]

 

Villa Nova er einlyft timburhús með portbyggt ris, um 16,0 m að lengd og 9,7 m á breidd. Við framhlið hússins er útbygging, 4,0 m að lengd og 1,5 m á breidd, önnur við bakhlið þess, 4,9 m að lengd og 1,3 m á breidd, og garðstofa er við suðurgafl, 2,7 m að lengd og 6,4 m á breidd. Á húsinu er lágreist risþak og kvistur gengur þvert í gegnum suðurhluta þess. Húsið stendur á steinhlöðnum sökkli, veggir jarðhæðar eru klæddir vatnsklæðningu en porthæð er klædd lóðréttum strikuðum panil. Húsið er skreytt hæðarskilsbandi, hornborðum, skornum sperrutám og vindskeiðum. Á kjallara eru steypujárnsgluggar, á jarðhæð eru ein- og tvípósta krossgluggar en á rishæð eru tveggja rúðu gluggar með miðpósti og eru gluggar skreyttir tannstöfum og kröppum. Þakið er klætt bárujárni og á því eru þakgluggar upp af útbyggingum. Útidyr eru á norðurgafli og að þeim trétröppur, bakdyr eru á vesturhlið og aðrar á suðurhlið garðstofu en á henni eru stórir smárúðóttir gluggar og þaksvalir girtar handriði með randskornum grindum. 



[1]Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940, 167. Reykjavík 1998.

[2]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Villa Nova.

[3]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Friðunarskjal Villa Nova.