Fara í efni
Til baka í lista

Villingaholtskirkja, Villingaholtshreppur, Árnessýsla

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1911

Hönnuður: Jón Gestsson forsmiður og bóndi í Villingaholti.[1]

Breytingar: Steypt var utan á grunn 1970 og kirkjuveggir, sem upphaflega voru klæddir bárujárni, voru klæddir álplötum með paneláferð árið 1972.

Hönnuður: Ólafur Sigurjónsson húsasmíðameistari.[2]

Veggir voru að nýju klæddir með bárujárni 2002.[3]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Villingaholtskirkja er timburhús, 9,58 m að lengd og 6,48 m á breidd. Þakið er krossreist og laufskornar vindskeiðar úr blikki eru undir þakbrúnum. Upp af framstafni er ferstrendur turn með íbjúga turnspíru. Undir honum er turnstallur með innsveigðu þaki. Kirkjan stendur á steinsteyptum sökkli. Veggir og þak eru klædd bárujárni. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar og tveir heldur minni yfir dyrum. Í þeim er T-laga póstur og tveggja rúðu rammi hvorum megin miðpósts en þverrammi með bogarimum yfir þverpósti. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir með þverglugga yfir.

Forkirkja er þiljuð af framkirkju með þverþili. Í henni er stigi á hvora hönd upp á söngloft en á þverþilinu eru dyr að framkirkju með spjaldsettum vængjahurðum. Inn af dyrum er gangur og bekkir hvorum megin hans. Kórpallur er hafinn yfir kirkjugólf um tvö þrep. Söngloft er við framgafl og svalir ganga inn í framkirkju. Undir frambrún þeirra eru tvær stoðir með súluhöfuð og bogadreginn biti með bókrolluskreytingu á endum og svipaður frágangur er á turnstoðum á sönglofti. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum og á kórgafli eru flatsúlur hvorum megin altaris og bogi yfir. Yfir allri kirkjunni stafna á milli er stjörnusett reituð hvelfing og strikasylla undir.



[1]HérÁrn. Smíðadagbók Jóns Gestssonar; ÞÍ. Bps. C. V, 75 B. Bréf 1915. Jón Gestsson: Lýsing Villingaholtskirkju, byggð 1911.

[2]Árnesprófastsdæmi. Vísitasíubók 1955-. Villingaholt 1998; Svavar B. Bjarnason bóndi í Villingaholti. Viðtal 2002; Guðmundur L. Hafsteinsson. Kirkjur Íslands 2. Villingaholtskirkja, 126-145. Reykjavík 2002.

[3]Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Villingaholtskirkja.