Fara í efni
Til baka í lista

Vopnafjarðarkirkja, Vopnafjörður

Friðlýst kirkja

Byggingarár: 1900

Byggingarár: 1902–1903.

Hönnuður: Björgólfur Brynjólfsson forsmiður frá Skjöldólfsstöðum í Breiðdal.[1]

Breytingar: Kirkjan var klædd að utan með panelmótuðum plötum 1974.

Tengibygging reist milli kirkju og safnaðarheimilis 1994.

Hönnuður: Hjörleifur Stefánsson arkitekt.[2]

Friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

 

Vopnafjarðarkirkja er timburhús, 10,31 m að lengd og 7,80 m á breidd, með kór undir minna formi, 3,76 m að lengd og 4,04 m á breidd, og turn við vesturstafn, 1,88 m að lengd og 4,03 m á breidd. Stöpull er tvískiptur; breiður neðst og á honum rismikið þak. Á stöpulþakinu er ferstrendur burstsettur turn og ferstrend spíra yfir. Þök eru krossreist og klædd bárujárni. Kirkjan er klædd lóðréttum panelborðum með hálfstafsstriki og jaðarsniði og stendur á steinsteyptum sökkli. Á norðurhlið kirkju eru þrír smárúðóttir oddbogagluggar úr steypujárni, tveir á suðurhlið og einn á hvorri hlið kórs. Tveir litlir gluggar eru á hvorum stafni kirkju og einn á framhlið stöpuls og annar mjórri á framstafni turns en oddbogadregin hljómop með hlera á hvorri turnhlið. Tengibygging milli kirkju og safnaðarheimilis sunnan kirkjunnar er við innsta glugga sunnan megin. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og oddbogagluggi yfir.

Í forkirkju er stigi til sönglofts og setsvala inn með hliðum. Að framkirkju eru spjaldsettar vængjahurðir og gangur inn af þeim. Þrjár súlur eru undir frambrúnum setsvala hvorum megin. Aftursættir þverbekkir eru hvorum megin gangs en langbekkir á setsvölum. Kór er hafinn yfir kirkjugólf um eitt þrep. Í kórdyrum eru flatsúlur hvorum megin og kórdyrabogi yfir. Veggir eru klæddir strikuðum panelborðum. Yfir kirkjunni er borðaklædd hvelfing og önnur minni yfir kór.



[1] ÞÍ. Bps. C, V. 31. Bréf 1904. Reikningur yfir byggingu kirkjunnar á Vopnafirði í Norðurmúlaprófastsdæmi árið 1902-1903, ásamt fylgiskjölum.

[2] Húsafriðunarnefnd. Skjalasafn. Vopnafjarðarkirkja.