Fara í efni

Breyting á friðlýsingu Fríkirkjuvegar 11

Stofa 1. hæð
Stofa 1. hæð

Að tillögu Minjastofnunar Íslands hefur forsætisráðherra samþykkt breytingu á skilmálum friðlýsingar Fríkirkjuvegar 11 í Reykjavík. Friðlýsingin tekur nú til ytra borðs hússins og eftirtalinna byggingahluta innan dyra: Gólfs, veggjaklæðninga og lofts í anddyri 1. hæðar; veggjaklæðninga og lofta í viðhafnarstofu og borðsal á 1. hæð; upprunalegs parkettgólfs í viðhafnarstofu á 1. hæð; lofta í hliðarsal, setustofu og veitinga­herbergi á 1. hæð; veggjaklæðninga á gangi 1. og 2. hæðar með fyrirvara um afturkræfa breytingu á aðalstiga; snyrtiklefa á neðri hæð bakstigahúss og bakstiga. Friðlýsingarbréfið var undirritað 12. maí 2015.

Athafnamaðurinn Thor Jenssen fékk Einar Erlendsson arkitekt til að teikna fyrir sig íbúðarhús sem hann reisti við Fríkirkjuveg 11 á árunum 1907-1908. Þegar það var fullbúið þótti húsið eitt glæsilegasta íbúðarhús landsins. Auk fjölmargra atriða sem voru nýlunda á þeim tíma, s.s. vatns- og raflagnir, er innra byrðið vitnisburður um hið besta sem gert var á þessu sviði á fyrri hluta 20. aldar, hvort sem um er að ræða frágang á smíðum eða málun, sem unnin var af fyrstu lærðu íslensku málurunum. 

Húsið Fríkirkjuvegur 11 var friðað í B-flokki 26. apríl 1978. Samkvæmt 27. gr. laga nr 52/1969 náði friðun í B-flokki einungis til ytra borðs húss. 

Menntamálaráðherra ákvað 30. maí 2012 að friða (friðlýsa skv. núgildandi lögum) innra borð hússins í heild sinni á grundvelli tillögu þeirrar húsafriðunarnefndar sem þá sat. Eftir úrskurð umboðsmanns Alþingis 16. janúar 2013 ákvað menntamálaráðuneytið að fela Minjastofnun Íslands að endurupptaka málið og afhenti það forsætisráðuneyti til þóknanlegrar meðferðar. Breytingar á skilmálum friðlýsingar hússins voru gerðir í samráði við núverandi eiganda þess og lagðir fyrir húsafriðunarnefnd og samþykktir á fundi hennar 12. ágúst 2014. 

Um mögulega niðurtekt og varðveislu aðalstiga hússins gilda ákvæði sérstaks samkomulags, þar sem veitt er heimild að hann verði tekinn niður og varðveittur á öruggum stað í húsinu á þeirri forsendu að um fullkomlega afturkræfa breytingu sé að ræða. Eigandi hússins mun í tengslum við samkomulagið samþykkja þinglýsta kvöð þess efnis að selji hann húsið, geti Minjastofnun eða arftaki hennar krafist þess að aðalstigi hússins verði settur aftur upp á sínum upprunastað, á kostnað núverandi eiganda.