Fara í efni

Fjárúthlutun ríkisins til brýnnar uppbyggingar og verndaraðgerða á ferðamannastöðum

Starfsfólk Minjastofnunar Íslands hefur orðið vart við villandi umfjöllun í tengslum við úthlutun styrkja til brýnnar uppbyggingar og verndaraðgerða á ferðamannastöðum sem eru í eigu eða um­sjón rík­is­ins. Ríkið tilkynnti um þessa úthlutun í lok maí. Alls var um 850 milljónum úthlutað til fjölda verkefna sem stofnanir ríkisins hafa yfirumsjón með (sbr. frétt um málið http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/05/26/850_milljonir_i_bryn_verkefni/). Telur stofnunin því ástæðu til að taka saman helstu upplýsingar um þessa fjárúthlutun og verkefnin sem farið verður í og birta hér.

Minjastofnun Íslands, sem er sú stjórnsýslustofnun sem fer með málefni menningarminja í umhverfinu (fornleifa, húsa og mannvirkja), fékk rúmlega 100 milljónir af þeim 850 sem úthlutað var. Verður þeim varið  í verndaraðgerðir og uppbyggingarframkvæmdir á 17 minjastöðum um land allt. Um er að ræða staði sem eru í hættu vegna ágangs ferðamanna, þarfnast viðhalds eða bætts skipulags eða eru í þannig ástandi að þeir geta verið hættulegir þeim ferðamönnum sem staðina sækja heim. Styrkirnir eru ekki ætlaðir til rannsókna heldur verndaraðgerða og uppbyggingarframkvæmda, s.s. skipulagsgerðar, stígagerðar, lagfæringar á hleðslum og skiltagerðar, þótt smávægilegar rannsóknir og/eða framkvæmdaeftirlit muni án efa fylgja mörgum verkefnanna.

Minjastofnun Íslands fer með framkvæmd og fjármál verkefnanna og er það hún sem ræður aðila til að vinna þá verkþætti sem stofnunin skilgreinir fyrir hvern stað s.s.  iðnaðarmenn, fornleifafræðinga, hönnuði eða aðra.

Starfsfólk Minjastofnunar vinnur að því þessa dagana að gera verk- og kostnaðaráætlanir fyrir verkefnin 17 og munu upplýsingar um framvindu þeirra verða aðgengilegar á síðunni: http://www.minjastofnun.is/minjar/ataksverkefni-i-minjavernd/. Haft er samráð við viðeigandi aðila á hverjum stað og er öll fyrri vinna sem innt hefur verið af hendi í tengslum við minjastaðina, s.s. skipulag, hönnun og hugmyndavinna, lögð til grundvallar við greiningu á hverju verkefni.